Fara í efni
Drift EA – miðstöð nýsköpunar og frumkvöðla

SA Víkingar unnu og nálguðust toppliðin

Úr leik SA Víkinga gegn SFH fyrr í mánuðinum. Myndin er fengin af Facebook-síðu íshokkideildar SA.

SA Víkingar svöruðu fyrir tapið í gær og unnu seinni viðureign sína við lið Skautafélags Hafnarfjarðar í dag, 5-2, og eru nú stigi á eftir toppliðum Íslandsmótsins, Toppdeildarinnar.  

Heimamenn voru heldur aðgangsharðari í fyrsta leikhlutanum, en það voru Hafnfirðingar sem skoruðu fyrsta mark leiksins, voru þá einum fleiri eftir átök og refsingar þar sem þrír leikmenn SA og tveir frá SFH voru sendir í refsiboxið, rétt eftir miðjan fyrsta leikhluta. Það tók SA Víkinga þó ekki nema tvær mínútur að jafna, þá einnig einum fleiri eftir refsingu á leikmann SFH. Unnar Hafberg Rúnarsson náði svo forystunni fyrir SA seint í fyrsta leikhluta eftir frábæra sendingu Gunnars Arasonar út úr vörninni. 

Unnar skoraði sitt annað mark og kom SA í 3-1 um miðjan 2. leikhluta eftir sendingu Atla Sveinssonar og var það eina markið í leikhlutanum, staðan 3-1 fyrir lokaþriðjunginn.

SA Víkingar voru áfram með undirtökin í þriðja leikhluta, sem einkenndist af baráttu og átökum og áður en yfir lauk hafði einn leikmaður úr hvoru liði hlotið útilokun frá leiknum.

Jóhann Már Leifsson bætti við fjórða markinu um miðjan þriðja leikhluta. Stuttu eftir markið fékk leikmaður SFH útilokunardóm fyrir fólskulegt brot, en SA missti tvo í refsiboxið á sama tíma vegna átaka í framhaldinu. SA Víkingar voru því með þrjá útileikmenn á móti fjórum og það nýttu gestirnir sér og minnkuðu muninn í 4-2. Jóhann skoraði svo sitt annað mark og fimmta mark SA þegar um sex mínútur voru til leiksloka. Ekki löngu seinna kom svo aftur til átaka og hlaut leikmaður SA þá útilokun frá leiknum, en leikmenn SFH fengu refsingu á sama tíma og liðin kláruðu því leikinn fjórir á fjóra og rann leiktíminn út án þess að fleiri mörk væru skoruð.

SA Víkingar höfðu góð tök á leiknum og sóttu án afláts. Þeir áttu til að mynda 55 skot að marki SFH á móti 23 skotum gestanna.

Með sigrinum fóru SA Víkingar upp í 15 stig, en fyrir ofan eru Fjölnir og SR með 16 stig. SA Víkingar eiga þó leik til góða. SFH er í 4. sætinu með fjögur stig.

SA

Mörk/stoðsendingar: Unnar Hafberg Rúnarsson 2/0, Jóhann Már Leifsson 2/0, Marek Vybostok 1/1, Orri Blöndal 0/2, Pétur Sigurðsson 0/1, Gunnar Aðalgeir Arason 0/1, Atli Sveinsson 0/1, Andri Már Mikaelsson 0/1.
Varin skot: Tyler Szturm 21 (91,3%).
Refsimínútur: 45.

SFH

Mörk/stoðsendingar: Steinar Veigarsson 1/0, Alex Kotásek 1/0, Björn Sigurðarson 0/2, Gus Jerzy 0/1.
Varin skot: Radek Haas 50 (90,9%).
Refsimínútur: 43.

Upptöku af leiknum má sjá í spilaranum hér að neðan: