Fara í efni
Drift EA – miðstöð nýsköpunar og frumkvöðla

Nemendur Hlíðarskóla söfnuðu upp í ærslabelg

Ærslabelgurinn kominn á sinn stað við Hlíðarskóla, þökk sé áheitasöfnun nemenda. Mynd: akureyri.is.

Nemendur Hlíðarskóla voru ekkert að tvínóna við hlutina þegar þá langaði til að bæta útisvæðið svið skólann. Farið var af stað með áheitasöfnun í vor og efndu til áheitahlaups þar sem þeim tókst að safna rúmlega 170 þúsund krónum. Með aðstoð frá Akureyrarbæ hefur draumur þeirra nú orðið að veruleika og var svokallaður ærslabelgur settur upp við skólann í haust. Frá þessu er sagt á vef Akureyrarbæjar, þar sem einnig segir:

Valdimar Heiðar Valsson, skólastjóri Hlíðarskóla, segir krakkana hafa hoppað á belgnum í þrjá daga áður en veturinn bankaði upp á. „Það var svekkjandi að ná ekki að nota hann meira áður en frostið og snjórinn kom en það er strax komin spenna að setja hann upp í vor. Maður er svo ánægður yfir þessu frumkvæði krakkanna. Þau sögðu bara hingað og ekki lengra og fóru í þetta sjálf,“ segir Valdimar Heiðar sem segir nemendur sjálfa afar stolta af belgnum. „Þeim finnst þau eiga heilmikið í honum en ég vil einnig þakka bænum fyrir að bregðast skjótt við og hjálpa okkur í þessu verkefni.“

Valdimar Heiðar segir að nemendur vinni einnig að smíði á trékofa og flotbryggju. „Við grípum í þetta í smíðatímum og útikennsluvali. Þessi verkefni hafa sameinað nemendur okkar, sem eru frá öðrum bekk upp í tíunda bekk. Það hjálpast allir að við að gera umhverfið hérna meira spennandi. Við höfum fengið góða aðstoð frá fyrirtækjum á svæðinu sem gera okkur kleift að fara í þessi verkefni og við viljum þakka þeim fyrir og ef það eru fleiri sem vilja leggja okkur lið þá væri það vel þegið.“

Myndirnar með fréttinni er af vef Akureyrarbæjar.