Fara í efni
Daniel Willard Fiske

Skipulagsbreyting vegna Austursíðu 2-6

Fjölbýlishúsið sem umsækjendur æskja að byggja á lóð Austursíðu 4 er hér fremst í mynd, á horni Austursíðu og Síðubrautar. Myndin er skjáskot úr fylgiskjali með umsókninni.

Áform um byggingu fimm hæða húss á gatnamótum Austursíðu og Síðubrautar með íbúðum á efri hæðum eru enn á dagskrá og komin skrefi lengra en áður með því að skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur nú kynnt tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar sem tekur til lóðanna Austursíðu 2-6. 

Akureyri.net hefur áður fjallað um þessi áform og sýnt teikningar af fyrirhugaðri byggingu eins og hún kom fram í endurnýjaðri umsókn Baldurs Ólafs Svavarssonar, fyrir hönd Norðurtorgs ehf., til skipulagsráðs í febrúar. Samkvæmt auglýsingu skipulagsráðs felur breytingin í sér að lóðirnar að Austursíðu 2-6 eru teknar út úr skipulagsreit AT7 (athafnasvæði) í gildandi skipulagi og nýr reitur skilgreindur sem verslunar- og þjónustusvæði (VÞ24). Þar innan eru byggingar Norðurtorgs, nýbygging austan Norðurtorgs og fyrirhuguð bygging með íbúðum, verslun og þjónustu á lóð nr. 4, ásamt bílastæðum og fleiru.


Úr auglýsingu Akureyrarbæjar. Gula punktalínan afmarkar það svæði sem tekið er út úr skipulagsreit AT7 og skilgreint sem nýr skipulagsreitur fyrir verslun- og þjónustu (VÞ24). 

Reiturinn sem um ræðir er tæplega fjórir hektarar að stærð. Eftir breytingu verður heimilt að byggja fimm hæða hús með allt að 100 íbúðum á reitnum, en þó með þeirri kvöð að alltaf sé verslun og þjónusta á jarðhæðum.

Veittur er frestur til 28. nóvember til að koma athugasemdum við skipulagstillöguna á framfæri við skipulagsdeild og er hægt að koma þeim á framfæri til þjónustu- og skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrarbæjar eða í gegnum skipulagsgátt.

Skýringarmynd þar sem horft er yfir Norðurtorg og fyrirhugað fjölbýlishús úr suðaustri. Smellið á myndina til að opna pdf-skjal í fundagátt Akureyrarbæjar með fleiri myndum og teikningum.

Myndirnar hér að neðan eru einnig skjáskot úr fylgiskjali með umsókn um breytingu á skipulagi vegna fyrirhugaðrar byggingar. Sú efri sýnir byggingarnar séðar frá Síðubraut. Fjær er skrifstofubygging sem er í byggingu, en nær er fjölbýlishúsið sem skipulagsbreytingin snýst í raun um. Það er fimm hæða hús með íbúðum á efri hæðum. 

Neðri myndin sýnir skýringarmyndir eins og nýbyggingar horfa við úr austursíðu. Til hægri sést hluti Norðurtorgs, nýbygging undir skrifstofur þar á bakvið og fyrirhuguð íbúðabygging til vinstri. Í júlí í fyrra auglýstu Kasa fasteignir eftir áhugasömum leigjendum sem hefðu áhuga á veitingarekstri í svörtu byggingunni sem stendur við bílastæðið og gegnt verslunarmiðstöðinni.