Fara í efni
Daniel Willard Fiske

Grímsey: Ásthildur vongóð um farsæla lausn

Mynd: Friðþjófur Helgason

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segist vongóð um að farsæl lausn finnist fyrir Grímseyinga sem allra fyrst varðandi það að fá undanþágu frá kröfu um að fiskur sem veiddur er skv. sértækum byggðakvóta verði unninn í eyjunni. 

Eins og Akureyri.net sagði frá í gær var útgerðarmönnum í Grímsey tilkynnt í vikunni að þeir muni ekki lengur fá umræddu undanþágu. Ekki hefur þótt svara kostnaði að koma á fót fiskvinnslu í Grímsey heldur er afli útgerða þar unninn annars staðar, og strax og tíðindin bárust ákváðu fjórar fjölskyldur að auglýsa hús sín til sölu og fleiri íhuga að flytja á brott.

„Við Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar, Ingibjörg Isaksen alþingismaður og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra áttum fund áðan um málefni Grímseyjar. Á fundinum kom fram mikill vilji til þess að leysa þá stöðu sem upp er kominn í Grímsey,“ skrifar Ásthildur á Facebook síðu sína.

„Matvælaráðuneytið, í samráði við önnur ráðuneyti, mun skoða málið frekar. Ég er vongóð um að farsæl lausn finnist fyrir Grímseyinga sem allra allra fyrst,“ skrifar bæjarstjórinn. Ásthildur situr nú fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í Reykjavík en vonandi fær Akureyri.net frekari upplýsingar um málið síðar í dag.

Frétt Akureyri.net í gærkvöldi:

„Hrikalegt bakslag fyrir byggð í Grímsey“