Fara í efni
Covid-19

Vilja aflétta öllum takmörkunum í júní

Heilbrigðisráðuneytið kynnt í dag áætlun um afléttingu innanlandstakmarkana vegna COVID-19 í áföngum með hliðsjón af framgangi bólusetningar. Áætlað er að aflétta megi öllum innanlandstakmörkunum síðari hlutann í júní þegar um 75% þjóðarinnar hafi fengið a.m.k. einn bóluefnaskammt. Áætlunin verður birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og lýkur umsagnarfresti 4. maí nk.

Afléttingaráætlunin er í fjórum skrefum og tekur mið af framgangi bólusetningar. Áætlunin er sett fram með hliðsjón af því hve hratt gengur að bólusetja landsmenn og er jafnframt birt með fyrirvara um mat sóttvarnalæknis á aðstæðum og stöðu faraldursins á hverjum tíma.

Fyrsta skref afléttingar hefur þegar verið tekið með tilslökunum á samkomutakmörkunum og í skólastarfi sem tóku gildi 15. apríl síðastliðinn. Þá voru fjöldatakmörk aukin úr 10 í 20 manns, opnað var fyrir starfsemi sundlauga, líkamsræktarstöðva o.fl. með takmörkunum, hægt var að hefja sviðslistastarf á ný og sitthvað fleira.

  • Fyrri hluti maí: Fleiri megi koma saman

Áætlað er að snemma í maí verði unnt að stíga annað skref til rýmkunar á innanlandstakmörkunum þegar a.m.k. 35% landsmanna hafa fengið bólusetningu. Gert er ráð fyrir að hægt verði að hækka fjöldatakmarkanir og er miðað við mörk á bilinu 20 – 200 manns. Einnig er gert ráð fyrir rýmri undanþágu frá nálægðarreglu og fjöldatakmörkun fyrir tiltekna starfsemi.

  • Síðari hluti maí: Nálægðarmörk verða 1 metri og fjöldatakmörk rýmkuð enn frekar

Síðari hlutann í maí er gert ráð fyrir að am.k. 50% landsmanna hafi fengið bólusetningu og að bólusetning einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma sé komin vel á veg. Þá verði unnt að rýmka fjöldatakmarkanir til muna, sem verði einhvers staðar á bilinu 100 til 1.000 manns. Samhliða verði nálægðarmörk færð úr tveimur metrum í einn.

  • Síðari hluti júní: Öllum takmörkunum aflétt innanlands

Gert er ráð fyrir að aflétta megi öllum takmörkunum innanlands seinni hlutann í júní. Á þeim tíma er gert ráð fyrir að búið verði að bólusetja um 75% landsmanna að minnsta kosti einu sinni.

Forsendur afléttingaráætlunarinnar eru annars vegar fyrirliggjandi áætlanir um afhendingar bóluefna ásamt markmiðum samninga um afhendingu og hins vegar bólusetningaráætlun embættis landlæknis.