Tap gegn Njarðvík og Þór í þriðja sætinu

Kvennalið Þórs í körfubolta tapaði öðrum leiknum í röð og færðist niður í 3. sæti Bónusdeildarinnar fyrir tvískiptingu deildarinnar. Njarðvíkingar keyrðu yfir Þórsliðið í fyrri hálfleiknum, náðu mest 27 stiga forskoti í 3. leikhlutanum og það var einfaldlega of mikið til að hægt væri að ná því til baka.
Upphafsmínúturnar einkenndust af slakri skotnýtingu beggja liða, en Njarðvíkingar náðu vopnum sínum þegar leið á fyrsta leikhlutann og enduðu leikhlutann með sjö stiga forskot. Fljótlega í 2. leikhluta var munurinn orðinn 15 stig og jókst svo jafnt og þétt áfram. Njarðvíkingar með 21 stig í forskot eftir fyrri hálfleikinn. Skotnýtingin úr þriggja stiga skotum var afar slök, Þórsliðið aðeins með eina slíka körfu úr 14 tilraunum. Það var ekki fyrr en um miðjan 3. leikhlutann sem Þórsliðið fór að saxa aðeins á forskotið, en munurinn á endanum 14 stig, 94-80.
Barátta um 2. sætið
Nokkuð er síðan að ljóst varð að Þór yrði í efri hlutanum þegar deildinni yrði tvískipt í A- og B-hluta. Fimm efstu liðin spila einfalda umferð innbyrðist í A-hlutanum og fimm þau neðri í B-hlutanum. Að því búnu fara átta efstu liðin í hefðbundna úrslitakeppni.
Leikurinn í kvöld var því barátta um 2. sætið og leikjadagskrána fram undan. Fyrir leik kvaðst Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, vonast til að vinna leikinn því hann væri spenntari fyrir leikjadagskránni fram undan hjá liðinu sem endar í 2. sæti deildarinnar. Honum varð því miður ekki að ósk sinni. Mótherjar í efri hlutanum verða Haukar, Njarðvík, Keflavík og Valur og verkefnið fram undan því mikil áskorun fyrir Þórsliðið.
Amandine Toi og Maddie Sutton skoruðu mest Þórskvenna í kvöld, 24 og 21 stig, auk þess sem Maddie hélt uppteknum hætti í frákastabaráttunni og tók 19 fráköst. Brittany Dinkins skoraði 29 stig fyrir Njarðvík.
- Njarðvík - Þór (24-17) (24-10) 48-27 (26-26) (20-27) 94-80
Staðan í deildinni
Tölfræðin úr leiknum
Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:
- Amandine Toi 24 - 2 - 6
- Maddie Sutton 21 - 19 - 6 - 37 framlagsstig
- Natalia Lalic 11 - 2 - 0
- Eva Wium Elíasdóttir 9 - 2 - 3
- Esther Fokke 8 - 5 - 3
- Adda Sigríður Ásmundsdóttir 3 - 0 - 0
- Emma Karólína Snæbjarnardóttir 2 - 6 - 0
- Hanna Gróa Halldórsdóttir 2 - 0 - 0