Tæp 30% misstu vinnu vegna Covid-19
Tæp þrjátíu prósent þeirra sem svöruðu könnun Gallup fyrir verkalýðsfélagið Einingu-Iðju segjast vera án atvinnu eða hafa orðið atvinnulaus hluta síðasta árs vegna afleiðinga af Covid-19. Þetta kemur fram í grein Björns Snæbjörnssonar, formanns Einingar-Iðju, sem birtist hér á Akureyri.net í morgun.
„Gallup hefur á undanförnum árum gert umfangsmiklar viðhorfs- og kjarakannanir fyrir Einingu-Iðju. Margir þættir eru skoðaðir og eru niðurstöðurnar afar gagnlegar fyrir félagið, því markmiðið er alltaf að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna. Slík könnun var gerð í vetur og niðurstöður liggja nú fyrir og eru aðgengilegar á vef félagsins, ein.is. Svörin eru mismunandi eftir atvinnugreinum, eins og við var að búast er hlutfallið hæst í ferðaþjónustunni. Niðurstaða sýnir vel hversu gríðarleg áhrif faraldurinn hefur haft á launafólk,“ segir Björn.