Fara í efni
Covid-19

„Eitt fullkomnasta fiskvinnsluhús heims“

Frá afheningu verðlaunanna í gær. Frá vinstri: Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir gæðastjóri Samherja, Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri IceFish 2024 og Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja. Mynd: Samherji/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Samherji hlaut í gær Íslensku sjávarútvegsverðlaunin sem veitt voru í nokkrum flokkum við upphaf Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, Ice Fish 2024. Samkoman fór fram í Salnum í Kópavogi.

Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi árangur í sjávarútvegi; Samherji fékk verðlaun í flokki sem kallast framúrskarandi alhliða birgir, þar sem vísað er til framleiðslu fyrirtækisins og vinnsluhússins glæsilega á Dalvík. „Samherji reisti eitt fullkomnasta fiskvinnsluhús heims á Dalvík, þar sem fyrirtækið framleiðir hágæða afurðir fyrir alþjóðlega markaði,“ segir í tilkynningu frá Ice Fish.

Vel tókst til

Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja og Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir gæðastjóri fyrirtækisins tóku á móti verðlaununum fyrir hönd Samherja.

„Við erum afskaplega stolt af þessum verðlaunum. Um þessar mundir eru fjögur ár síðan við hófum vinnslu í nýja húsinu og fullyrðum að um sé að ræða eina fullkomnustu bolfiskvinnslu í heiminum. Búnaðurinn er að mestu íslenskur og hönnun og útfærsla á mörgum þáttum starfseminnar er ný af nálinni. Húsið hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim og þessi verðlaun undirstrika að okkur hefur greinilega tekist vel til,“ segir Gestur á vef Samherja í dag.

Öflugt gæðaeftirlit

„Vinnslan á Dalvík er glæsilegt dæmi um nýsköpun, frumkvöðlastarf og góðan aðbúnað,“ segir Guðbjörg Ósk á vef Samherja. „Allt kapp er lagt á að uppfylla kröfur viðskiptavina og því er fylgst vel með framleiðslunni á öllum stigum. Þessi verðlaun eru kærkomin og sýna vel að við erum framarlega á heimsvísu,“ segir Guðbjörg.

Íslenska sjávarútvegssýningin Sýningin var formlega sett í gær en 40 ár eru síðan hún var fyrst haldin hér á landi. Að þessu sinni taka þátt sýnendur frá rúmlega 20 þjóðlöndum og kynna allt það nýjasta og besta í alþjóðlegum sjávarútvegi.

Hér má sjá lista yfir alla sem fengu verðlaun