Fara í efni
Covid-19

Samfelld útihátíð - en ekki má fara á skíði!

Margir, sem fylgjast með þúsundum flykkjast að gosinu í Geldingadölum, velta því bersýnilega fyrir sér hvers vegna óheimilt sé að hafa skíðasvæði landsins opin. Ein ástæða fyrir lokun þeirra er sögð sameiginlegir snertifletir, en einn slíkur rataði aldeilis í fréttir í vikunni; kaðallinn alræmdi sem berhentir gosferðamenn gripu um til að komast leiðar sinnar. Vitað mál er að á skíðasvæðum er enginn berhentur.

Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður Akureyrarstofu er einn þeirra sem hugsar upphátt um þessi mál, en stofan fer m.a. með ferðamál fyrir hönd bæjarfélagsins.

Hann segir á Facebook að fyrir þremur vikum hafi starfsfólk Akureyrarstofu átt fund með nokkrum tengiliðum frá Hlíðarfjalli, Sundlaug Akureyrar, hótelum, gistiheimilum, veitingastöðum, verslunum og úr menningarlífi á Akureyri. „Til að taka stöðuna og undirbúa okkur fyrir páskafrí landsmanna,“ skrifar hann á Facebook, og gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að vitna í þau skrif.

Jafnræði er útilokað

„Það var spenningur í fólki því það stefndi í stóra innlenda skíða- og menningarhátíð þar sem aðal aðdráttaraflið var Hlíðarfjall. Svo lét covid-19 á sér kræla einu sinni enn og yfirvöld brugðust við af festu með víðtækum lokunum, hömlum og hörðum samkomutakmörkunum. Þessu hefur fólk tekið af ótrúlegu æðruleysi þrátt fyrir glötuð tækifæri,“ skrifar Þórgnýr.

„Ég veit vel að hugtakið jafnræði hefur eiginlega ekki átt við í þeim aðgerðum sem við höfum tekist á hendur til að stemma stigu við faraldrinum á þessu rúma ári. Þó einu sé lokað þá þýðir það ekki að öllu sé lokað – þó eitt geti verið opið þá þýðir það ekki að allt fái að vera opið. Það segir sig sjálft – jafnræði er útilokað með hliðsjón af markmiðinu. Þetta hefur mætt merkilega miklum skilningi. Ég hef dáðst af seiglu og þolinmæði fólks í einkageiranum sem verður fyrir beinum tjóni af aðgerðunum – og lýsir yfir stuðningi við aðgerðirnar í nafni samstöðu.“

Hins vegar eigi hann ákaflega erfitt með að skilja hvers vegna fólk megi ekki koma saman til að fara á skíði, sé hvatt til að leggja ekki land undir fót, til að koma sér ekki í aðstæður sem reyna á viðbragðsaðila að óþörfu o.s.frv. – „á sama tíma og þúsundir og aftur þúsundir leggja leið sína í Geldingadal til að berja eldgosið stórkostlega augum.“ Sem sé mjög skiljanlegt, vel að merkja, og hann langi mest!

Hverjum á að trúa?

„Og það þarf að gera út heri björgunarsveitarfólks og nú á að flytja það úr öðrum landshlutum, það þarf að kalla til þyrlu, sjúkrabíla og lögregla þarf að hafa eftirlit með fólki. Þessi mynd passar einfaldlega ekki við þá staðreynd að við séum í miðjum hörðustu aðgerðum gegn covid-19 frá upphafi. Það má hvergi slaka á en í Geldingadal hefur baráttan gegn faraldrinum verið tekin úr sambandi að því er virðist.“

Hugtakið jafnræði hafi sem sagt nánast verið tekið úr sambandi í baráttunni gegn covid-19 og þannig sé það bara. „En engu að síður: Hverjum á að trúa þegar okkur er sagt að við megum ekki koma saman í útivist til að renna okkur á skíðum í Hlíðarfjalli og á öllum hinum skíðasvæðunum? Þegar við höfum fyrir augunum á sama tíma samfellda skipulagða og áhættumikla útihátíð í Geldingadal þar sem ekkert til sparað svo hún geti farið fram?“