Fara í efni
Covid-19

Pálmi fyrstur: „Óska okkur til hamingju“

Fyrsta sprautan! Anna Rósa Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur, sprautar Pálma Óskarsson, forstöðulækni bráðalækninga á SAk, sem veitir Covid legudeildinni forstöðu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Pálmi Óskarsson var fyrsti starfsmaður Sjúkrahússins á Akureyri sem var sprautaður með bóluefni gegn Covid-19 um tíuleytið í morgun. Hann er forstöðulæknir bráðalækninga á SAk og veitir Covid legudeildinni forstöðu. Það var Anna Rósa Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur sem fékk þann heiður að sprauta. 

Zoe Rochford frá Ástralíu, læknir á bráðamóttökunni, var önnur í röðinni og á eftir henni var þriðji læknirinn, Hannes Petersen, sprautaður. „Það eru forréttindi að búa á stað á jarðarkringlunni þar sem maður fær bóluefni á þessum tíma,“ sagði Hannes við Akureyri.net á eftir.

„Loksins!“ sagði Pálmi Óskarsson. „Samt er varla hægt að segja loksins, það er svo ótrúlega stuttur tími sem tekið hefur að þróa bóluefnið,“ sagði Pálmi.

„Þetta skiptir miklu máli fyrir okkur. Vonandi getum getum við sett niður varnirnar hægt og rólega þótt við vitum að það verði ekki alveg strax, en þetta breytir miklu fyrir starfsaðstöðu og aðbúnað. Við vitum samt ekki nákvæmlega hvernig málin þróast; í fyrsta lagi þurfum við að fá tvær sprautur, þá seinni eftir þrjár vikur, svo við notum allar varnir á meðan og það verður svo í samvinnu við Landspítalann hvort og hvernig við fellum varnirnar. Ég vil óska okkur til hamingju, þetta er ótrúlega gott skref og ég tek undir með Hannesi. Það væri óskandi að allur heimurinn væri í þeirri aðstöðu að geta fengið bóluefni strax og ekki þyrfti að forgangsraða.“

Sjúkrahúsið á Akureyri fékk 130 skammta af bóluefni. Fólk í framlínunni verður sprautað fyrst; starfsmenn á bráðamóttöku, gjörgæsludeild og Covid-deild, svo og nokkrir sjúklingar. Hópurinn verður allur bólusettur í dag.