Opnað í dag - nýja lyftan ekki í notkun strax
Nýjasta lyftan á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli verður ekki tekin í notkun í dag, þegar svæðið verður opnað almenningi í fyrsta skipti í vetur. Enn er verið að vinna að ákveðnum hlutum sem eftirlitsmenn gerðu athugasemdir við, þegar þeir gerðu úttekt á lyftunni fyrir skömmu. Ekki er ljóst hvenær þeirri vinnu lýkur og Vinir Hlíðarfjalls, sem standa að framkvæmdinni, geta afhent Akureyrarbæ lyftuna til notkunar.
Skíðamenn komast nokkuð hærra á svæðinu en hingað til, eftir að lyftan fer í gang: upp á svokallaða Fjallkonuhæð, sem er liðlega þúsund metrum yfir sjávarmáli. Endastöð nýju lyftunnar er 34 metrum ofar sjávarmáls en skíðamenn fara úr Stromplyftunni.
Skíðasvæðið verður opnað í hádeginu í dag, eins og fram kom hér í gær. Seint í gærkvöldi var opnað á ný fyrir sölu miða í lyfturnar á heimasíðu skíðasvæðisins, á sölusíðuna er hægt að fara með því að smella HÉR.
Síðdegis í gær hugðust stjórnendur í Hlíðarfjalli setja upp vegartálma á leiðinni upp í fjall og einungis hleypja þeim framhjá sem gætu sýnt kvittun fyrir miðakaupum en horfið var frá.
Vegna sóttvarnarreglna geta ekki eins margir og venjulega verið á skíðum í einu.
Miðar eru eingöngu seldir á netinu, takmarkað magn er í boði á hverju tímabili og ekki verður hægt að kaupa miða langt fram í tímann. Tilkynnt verður þegar dögum verður bætt í sölu.
Opið verður um helgina sem hér segir:
Í dag, föstudag 15. janúar kl. 12.00 - 19.00
Laugardag 16. janúar kl. 10.00 - 17.00
Sunnudag 17. janúar kl. 10.00 - 17.00
Virka daga í vetur (á meðan núverandi sóttvarnarreglur eru í gildi) verða tveir kostir í boði:
- Miði í 3 klukkustundir sem tekur gildi þegar farið er í gegnum hlið við lyftu.
- Dagspassi sem gildir frá opnun til lokunar, kl 12.00 til 19.00
Um helgar (á meðan núverandi sóttvarnarreglur eru í gildi) verða tveir möguleikar í boði:
- Lyftumiði sem gildir frá kl. 10:00 - 13:00
- Lyftumiði sem gildir frá kl. 14:00 - 17:00
Um helgar verður lyftum lokað á milli klukkan 13:00 og 14:00 til að þeir sem eru á leið af skíðasvæðinu og þeir sem koma á staðinn þurfi ekki að vera þar samtímis.
Athugið að vetrarkort gilda bæði fyrri- og seinni part dags. Þeir sem hafa þegar keypt sér vetrarkort og dagspassa fyrir helgina eiga tryggt pláss á svæðinu.
Á heimasíðu skíðasvæðisins er bent á að miðasala verði opin fyrir þá sem vantar Skidata kort og þá sem þurfa einhverja aðstoð.