Miklar tilslakanir á laugardaginn
Miklar tilslakanir verða á sóttvarnaraðgerðum hér á landi strax á laugardag. Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis þess efnis, sem ræddar voru á fundi ríkisstjórnar í morgun.
Breytingarnar, sem taka gildi á laugardag og gilda í þrjár vikur, eru þessar skv. heimasíðu stjórnarráðsins:
- Full afköst í líkamsrækt og í sundi, 75% afkastaleyfi afnumið.
- 200 manns mega koma saman á hvers konar æfingum og keppni í íþróttum og sviðslistum.
- Eins meters regla fellur á sitjandi viðburðum – áfram gildir grímuskylda.
- Leyfilegur hámarksfjöldi gesta á veitingastöðum fer úr 100 í 200 í rými.
- Leyfi til að halda sitjandi viðburði með allt að 500 manns, án fjarlægðatakmarkana, verða útfærð með notkun hraðprófa.
- Áfram verður 200 manna samkomutakmörk almenn regla og reglur um grímuskyldu haldast óbreyttar.
Á vef Stjórnarráðsins segir að á næstu dögum verði unnið að útfærslu á tillögum sóttvarnalæknis um að hægt verði að hafa allt að 500 manns í hólfi á sitjandi viðburðum og engin fjarlægðarmörk gegn hraðprófum. Sú útfærsla verður unnin í nánu samráði við þau sem standa fyrir stórum viðburðum.
Reglum um sóttkví var breytt í vikunni með það að markmiði að þær séu síður íþyngjandi og settar hafa verið reglur um sjálfspróf og reglur um hraðpróf uppfærðar.
„Temprun á útbreiðslu smita virðist ákjósanlegasta og ábyrgasta leiðin til þess að koma íslensku samfélagi smám saman úr hættuástandi vegna Covid-19. Það felur í sér að í stað þess að bæla niður smit með hörðum aðgerðum eða leyfa veirusmitum að ganga óheftum yfir samfélagið er stefnt að því að viðhafa aðgerðir og ráðstafanir sem hægja á útbreiðslu veirunnar,“ segir á vef Stjórnarráðsins.
„Þessi aðferð er að verulegu leyti í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis um framtíðarfyrirkomulag sóttvarna á Íslandi. Stefnt er að því að aðferðafræði temprunar gildi í takmarkaðan tíma, nema alvarlegar breytingar verði á eðli faraldursins, til dæmis vegna nýrra afbrigða. Temprun smita felur í sér að tekin eru skref í átt að frekari opnun en álag vegna veikinda dreifist á lengra tímabil heldur en ef aðgerðir eru aflagðar í einu vetfangi.“
Nánar hér