Fara í efni
Covid-19

Miklar breytingar á gjaldskrá leikskóla

Leikskólabörn syngja fyrir forsetahjónin, Guðna Th. Jóhannesson og Elizu Reid, í opinberri heimsókn þeirra til Akureyrar í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í liðinni viku með sjö atkvæðum fulltrúa meirihlutaflokkanna nýja gjaldskrá fyrir leikskóla bæjarins sem felur í sér gjaldfrjálsa sex tíma og tekjutengda afslætti af leikskólagjöldum. Miðað er við að skólatíminn kl. 8-14 verði gjaldfrjáls, en fæðisgjald hækki í takt við aðrar gjaldskrárbreytingar. Teknir verða upp skráningardagar og heimgreiðslur. Boðað hefur verið til rafrænna kynningarfunda á morgun þar sem þessar breytingar verða kynntar foreldrum. 

Leikskólagjöldin tekjutengd

Vinna við undirbúning hófst í framhaldi af vinnu við fjárhagsáætlun 2023 þegar ræddar voru hugmyndir um að tekjutengja leikskólagjöld. Málið var fyrst kynnt með minnisblaði í fræðslu- og lýðheilsuráði í ágúst og í beinu framhaldi af því í bæjarráði. Í minnisblaðinu kemur meðal annars fram að dvalartími 85% leikskólabarna sé á bilinu 8-8,5 tímar og 95,8% í sjö klukkustundir eða meira. 

Bæjarfulltrúar meirihlutans bókuðu með samþykktinni að með gjaldfrjálsum sex tíma leikskóla væri verið að huga að velferð starfsfólks og barna í leikskólum hvað varði vinnuumhverfi og vinnuaðstöðu.

  • „Leikskólagjöld verða tekjutengd bæði fyrir einstaklinga og fólk í sambúð og þannig komið til móts við stóran hóp fólks,“ segir í bókun meirihlutans. 

Þá er bent á að samhliða sé verið að innleiða heimgreiðslur sem reiknað sé með að muni gagnast mörgum fjölskyldum með beinum og óbeinum hætti þegar meira rými skapist í leikskólunum. Samhliða þessu sé einnig verið að innleiða skráningardaga í því skyni að skapa svigrúm til að mæta fjögurra tíma styttingu vinnuvikunnnar hjá starfsfólki leikskólanna.

Samkvæmt fyrri reglum var 33% afsláttur veittur af leikskólagjöldum til einstæðra foreldra, sambýlisfólks þar sem báðir aðilar voru í námi, báðir aðilar án atvinnu eða báðir aðilar með 75% örorku og ef annað foreldri var í námi og hitt án atvinnu eða með 75% örorku. Þá var veittur systkinaafsláttur þannig að 50% afsláttur var fyrir annað barna og 100% fyrir það þriðja. Skráningardagar og gjaldfrjálsir sex tímar eru tilraunaverkefni til eins árs og verða gerðar stöðuskýrslur að liðnum sex og 12 mánuðum frá upphafi verkefnanna, að því er fram kemur í bókuninni.

Börn að leik á Krógabóli fyrir nokkrum árum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyri.net hefur áður sagt frá áformum um skráningardaga. Í stuttu máli virka þeir þannig að 20 daga á ári er reiknað með að leikskólabörn séu í fríi nema foreldrar skrái þau sérstaklega inn þessa daga með fjögurra vikna fyrirvara og er þá greitt sérstaklega fyrir þessa daga samkvæmt gjaldskrá leikskólanna. Skráningardagar eru meðal annars valdir út frá frídögum í grunnskólunum. 

Segja undirbúningi ábótavant

Fulltrúar minnihlutans hafa lýst efasemdum um málið, meðal annars með bókunum í bæjarráði og við afgreiðslu bæjarstjórnar. Við afgreiðslu bæjarráðs lýstu Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, V-lista, og Hilda Jana Gísladóttir, S-lista, því að líklegt væri að breytingarnar gögnuðust síst lágtekjufólki og fólki með lítið bakland, sem sé einmitt sá hópur sem sé sérstaklega mikilvægt að samfélagið standi vörð um.

  • „Fyrirhuguð þjónustuskerðing og gjaldskrárhækkun á fæðis- og leikskólagjöldum fyrir þau 85,2% foreldra sem nýta 8-8,5 tíma á dag á leikskólum er varhugaverð og líkleg til að auka ójöfnuð,“ segir meðal annars í bókun þeirra.

Jana Salóme og Hilda Jana segja enn fremur að miðað við fyrirliggjandi minnisblað gætu leikskólagjöld hækkað fyrir stærstan hluta foreldra um allt að 13%, auk þess sem horft sé til þess að fæðisgjald hækki almennt um 9%. „Umræða um styttingu vistunartíma leikskólabarna þarf að eiga sér stað og er sérstaklega mikilvægt að foreldrar taki þátt í þeirri umræðu,“ segir einnig í bókuninni.

UPPFÆRT: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var vitnað í bókun Hildu Jönu og fleiri um hækknir, en hún hefur nú birt færslu á Facebook, nokkurn veginn samhljóða grein sem flokksbróðir hennar, Sindri Kristjánsson, skrifaði og birtist hér á Akureyri.net fyrr í dag þar sem þau segja hækkanir á gjaldskrá enn meiri en áður var haldið fram þar sem framsetning upplýsinga hafi verið villandi og bornar saman ólíkar gjaldskrár með mismunandi þjónustu.

Hilda Jana ritar meðal annars í sínum pistli:

Þegar verið er að gera stórar og miklar breytingar er afar mikilvægt að leggja fram vönduð og samanburðarhæf gögn til að auðvelt sé að glöggva sig á breytingunum.

Nú er Akureyrarbær að kynna nokkuð viðamiklar og flóknar breytingar á fyrirkomulagi leikskólagjalda. Framsetningin er með þeim hætti að ætla má að hækkun fyrir þá þjónustu sem flestir nýta, (85,2% foreldra) er sögð annars vegar 13% fyrir 8,5 tíma og hinsvegar 5% fyrir 8 tíma. Raunveruleg hækkun er hinsvegar 21% fyrir 8,5 tíma og 11% fyrir 8 tíma.

Það sem veldur þessari villandi framsetningu er að verið er að bera saman ólíkar gjaldskrár með mismunandi þjónustu. Annarsvegar þjónustu sem var í boði 1.janúar 2023 þar sem innifalið í verðinu voru 20 fleiri dagar en í gjaldskrá fyrir árið 2024. Heill mánuður hverfur án þess að þess sé getið. Réttara er að bera gjaldskrá 2024 við gjaldskrá eins og hún var kynnt 1.október 2023 þar sem skráningardagakerfi var sett á laggirnar. Með slíkum samanburði má sjá að hækkun leikskólagjalda á stærstan hluta foreldra er að hækka langt umfram verðlagsþróun, óháð notkun á skráningardögum.

Hækkun á gjaldskrá skráningardaga er síðan annað umtalsefni enda hækkar hver skráningardagur um liðlega 72% eða úr 1.569 kr dagurinn í 2.696 kr.

Foreldri sem keypti 8,5 tíma í ársbyrjun 2023 á almennu gjaldi og vill kaupa sömu þjónustu 2024, þ.e. kaupir alla 20 skráningardaga, greiðir 2024 að jafnaði 57.130 en greiddi áður 46.438. 23% hækkun á milli ára eða rúmlega 128 þúsund í auknum álögum á heimilishaldið á ári.
Sama hvað fólki finnst um þessar breytingar í heild sinni, sem sannarlega koma til með að gagnast sumum mjög vel en öðrum alls ekki, þá er lágmark að gögnin sem liggja til grundvallar séu ekki villandi.

Í bókun í bæjarráði 19. október lýsa Jón Hjaltason, óflokksbundinn, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, V-lista, Gunnar Már Gunnarsson, B-lista, og Hilda Jana Gísladóttir, S-lista, áfram efasemdum um málið og segja undirbúningi vegna þess vera ábótavant og gögn takmörkuð. Þá segja þau dapurlegt að meirihlutinn sýni enga viðleitni til að verða við ábendingum Jafnréttisstofu til Akureyrarbæjar vegna málsins, það er að undirbyggja mætti mat á verkefninu út frá spurningum sem byggja á mannréttindastefnu Akureyrarbæjar:

Spurningarnar sem vísað er til í bókunni eru:

  • Hefur farið fram mat á áhrifum á ólíka hópa foreldra út frá t.d. kynjasjónarmiði, þjóðerni, hvort um er að ræða einstæða foreldra eða foreldra í sambúð?
  • Hefur verið lagt mat á það hvaða hópar eru líklegastir til að nýta eingöngu 6 tíma leikskóladvöl?
  • Hefur verið lagt mat á það hvaða hópar eru líklegastir til að kaupa viðbótartíma?
  • Hefur verið lagt mat á það hvort vinnutímastytting á við hjá öllum foreldrum leikskólabarna?
  • Hefur verið lagt mat á það hvort líkur eru á því að mæður fremur en feður minnki við sig starfshlutfall til að þurfa ekki að greiða fyrir viðbótartíma?
  • Hefur verið lagt mat á það hvaða áhrif ákvörðunin hefur á stöðu foreldra á vinnumarkaði?

Rafrænir kynningarfundir á morgun

Fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar hefur boðað til kynningarfunda fyrir foreldra leikskólabarna hjá Akureyrarbæ á morgun, þriðjudaginn 7. nóvember. Á fundunum verða Heimir Örn Árnason, formaður ráðsins, Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs, og Kristín Baldvinsdóttir, forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar hjá Akureyrarbæ.

Fundirnir verða fjarfundir á Teams, tveir á íslensku kl. 17 og 20:30 og einn á ensku kl. 18:15.  Sjá nánar um fundina á vef Akureyrarbæjar.