Fara í efni
Covid-19

Margrét Eiríksdóttir skólameistarafrú

Mynd: Guðrún Hlín Þórarinsdóttir

GAMLI SKÓLI – 15

  • Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net birtir af því tilefni einn kafla á dag út mánuðinn úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri.

Margrét Eiríksdóttir skólameistarafrú í eldhúsi sínu í Gamla skóla um 1960. Margrét og Þórarinn Björnsson gengu í hjónaband 1946 og bjuggu í íbúð skólameistara með börnum sínum Guðrúnu Hlín og Birni frá vori 1948 til 1960 er þau fluttust í nýja skólameistaraíbúð í Heimavist MA. Eldhúsinnréttingin á myndinni er að heita má óbreytt frá því skólahúsið var reist 1904.

Myndin er tekin í setustofu skólameistaraíbúðarinnar um 1960 í kaffiboði skólameistarahjóna sem þau héldu verðandi stúdentum á útmánuðum ár hvert. Þar var venja að Margrét Eiríksdóttir léki nokkur lög á slaghörpu við aðdáun og hrifningu allra.

Margrét Eiríksdóttir fæddist í Winnipeg 1914 en ólst upp í Reykjavík og var orðinn kunnur píanóleikari er hún kom til Akureyrar í ársbyrjun 1946 til þess að takast á hendur skólastjórn nýstofnaðs tónlistarskóla en Þórarinn Björnsson var formaður skólanefndar.

Margrét stundaði nám í píanóleik í Royal Academy of Music í Lundúnum á stríðsárunum og skaraði þar fram úr og vann til verðlauna. Einn kennari hennar var skoski píanóleikarinn og tónskáldið Frederic Archibald Lamond sem hafði verið nemandi Franz Liszts og tengdasonar hans, þýska píanóleikarans og tónskáldsins Hans Gido von Bülows. Margrét hafði haldið marga sjálfstæða píanótónleika í Reykjavík, þegar hún fluttist til Akureyrar, og var talin vel menntuð listakona og leikur hennar „hánorrænn og áslátturinn ýmist þrunginn upprunalegum krafti eða borin uppi af söngrænni mýkt,“ eins og Emil Thoroddsen segir í blaðadómi.

Yfir Margrétu, sem komin var af svarfdælsku og sunnlensku bændafólki, hvíldi rólegur andblær menningar og menntunar. Hæfðu þau skólameistarahjón hvort öðru vel, þótt ólík væru um margt. Menntaskólinn á Akureyri var á þeirra tíð aðsetur menntunar og menningar, enda voru þau hjón samhent um að gera hlut þessarar gömlu menntastofnunar sem mestan. Má hafa í huga franska orðtakið sem Þórarinn Björnsson viðhafði iðulega, þegar góðs manns var getið: Cherchez la femme: Leitið konunnar. Í orðtakinu felst sú trú að baki hverjum karlmanni, sem nær árangri, sé kona.

  • Margrét Eiríksdóttir er kafli úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013. Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.