Fara í efni
Covid-19

KA komið í 2-0 – meistarar á þriðjudag?

KA-konur fagna deildarmeistaratitlinum á dögunum. Hampa þær Íslandsbikarnum á þriðjudagskvöldið? Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið KA í blaki stendur afar vel að vígi í einvígi liðsins við Völsung um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin hafa mæst tvisvar og KA unnið 3-0 í bæði skiptin. Möguleiki er að Íslandsbikarinn fari á loft í KA-heimilinu á þriðjudagskvöld.

KA varð sem kunnugt er deildarmeistari í Unbroken-deild kvenna í blaki og vann síðan HK örugglega í undanúrslitum Íslandsmótsins. Sem deildarmeistarar spilaði KA-liðið á heimavelli í fyrsta leik og vann hann örugglega, 3-0. Annar leikur liðanna fór fram á Húsavík í gærkvöld. KA vann fyrstu lotuna með minnsta mun, 25-23, aðra lotuna 25-20 og þá þriðju 25-19.

Fyrsta hrinan í leiknum í gærkvöld var jöfn og spennandi. Liðin skiptust á forystunni framan af, en þegar leið á hrinuna virtist Völsungur ætla að klára hana, staðan 21-18 og 23-19 og heimakonur á Húsavík vantaði aðeins tvö stig til að vinna hrinuna. KA skoraði hins vegar sex síðustu stig hrinunnar og vann hana, 25-23.

Önnur hrinan var jöfn framan af, en KA-konur aftur sterkari þegar leið á hrinuna. Jafnt var 14-14, en KA seig fram úr eftir það og lét forystuna ekki aftur af hendi. Lokatölur 25-20, KA í vil. KA náði svo forystunni nokkuð snemma í þriðju hrinunni, munurinn mestur tíu stig í stöðunni 20-10 og lokatölur 25-19. Annar 3-0 sigur þar með í höfn og KA komið í mjög góða stöðu, þarf aðeins einn sigur í viðbót til að trygggja sér Íslandsmeistaratitililnn.

Þriðji leikurinn í einvígi liðanna verður spilaður í KA-heimiliinu þriðjudaginn 22. apríl. Með sigri þar getur KA unnið einvígið 3-0 og unnið titilinn.