Fara í efni
Covid-19

Íþróttahátíð í Hofi í dag – opin öllum

Baldvin Þór Magnússon og Sandra María Jessen voru verðlaunuð á hátíðinni fyrir ári síðan. Þau eru bæði á meðal tíu efstu aftur í ár. Myndir: Skapti Hallgrímsson.

Í dag verður opinberað hvaða íþróttafólk hlýtur sæmdarheitin íþróttakona og íþróttakarl Akureyrar fyrir árið 2024. Tilkynnt hefur verið hvaða einstaklingar urðu í tíu efstu sætunum í hvorum flokki. Það eru Íþróttabandalag Akureyrar og Akureyrarbær sem bjóða bæjarbúum til verðlaunahátíðar í Hofi í dag þar sem kjörinu verður lýst ásamt því að fleiri viðurkenningar verða veittar.

Hefðbundin dagskrá

Dagskráin í Hofi í dag hefst kl. 17:30, en opnað verður hálftíma fyrr. Þetta er í 46. skipti sem okkar fremsta íþróttafólk er heiðrað með þessum hætti. Fyrstu 37 árin var einn einstaklingur valinn á hverju ári, íþróttamaður Akureyrar, en nú verða bæði íþróttakona og -karl heiðruð í níunda sinn.

Hátíðin er opin öllum öllum og hefur ÍBA hvatt aðildarfélög til að fella niður æfingar og auglýsa viðburðinn innan sinna raða. Fyrir þau sem ekki komast er einnig mögulegt að fylgjast með streymi frá hátíðinni.

Dagskrá hátíðarinnar verður með svipuðu sniði og verið hefur undanfarin ár:

  • Hátíðin sett af formanni ÍBA
  • Ávarp formanns fræðslu- og lýðheilsuráðs
  • Kynning á Íslandsmeisturum 2024
  • Kynning á heiðursviðurkenningum fræðslu- og lýðheilsuráðs
  • Styrkveiting úr Afrekssjóði Akureyrar
  • Kynning á tilnefningum tíu efstu til íþróttamanns Akureyrar 2024
  • Kjöri íþróttkarls- og íþróttakonu Akureyrar 2024 lýst

Tilnefningar til íþróttakonu og íþróttakarls Akureyrar 2024 - tíu efstu í stafrófsröð.

Konur

  • Anna María Alfreðsdóttir, Akri – bogfimi
  • Anna Þyrí Halldórsdóttir, KA/Þór – handknattleikur
  • Drífa Ríkharðsdóttir, KA – blak
  • Eva Wium Elíasdóttir, Þór – körfuknattleikur
  • Hafdís Sigurðardóttir, HFA – hjólreiðar
  • Julia Bonet Carreras, KA – blak
  • Sandra María Jessen, Þór/KA – knattspyrna
  • Shawlee Gaudreault, SA – íshokkí
  • Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, UFA – frjálsar íþróttir
  • Stefanía Daney Guðmundsdóttir, UFA – frjálsar íþróttir

Karlar

  • Alex Cambray Orrason, KA – lyftingar
  • Alfreð Birgisson, Akri – bogfimi
  • Alfreð Leó Svansson, Þór – rafíþróttir
  • Baldvin Þór Magnússon, UFA – frjálsar íþróttir
  • Gísli Marteinn Baldvinsson, KA – blak
  • Hans Viktor Guðmundsson, KA – knattspyrna
  • Jóhann Már Leifsson, SA – íshokkí
  • Matthías Örn Friðriksson, Þór – pílukast
  • Veigar Heiðarsson, GA – golf
  • Þorbergur Ingi Jónsson, UFA – frjálsar íþróttir

Vernharð oftast kjörinn

Baldvin Þór Magnússon og Sandra María Jessen hlutu þessa viðurkenningu fyrir árið 2023 og eru þau bæði á meðal tíu efstu fyrir árið 2024. Vernharð Þorleifsson hefur oftast hlotið sæmdarheitið íþróttamaður Akureyrar, alls sjö sinnum. Bryndís Rún Hansen hefur verið kjörin oftast kvenna, alls fjórum sinnum, þar af einu sinni eftir að kjörinu var tvískipt. Gunnar Gíslason var sá fyrsti sem var kjörinn íþróttamaður Akureyrar, árið 1980. Alls hafa 28 einstaklingar hlotið sæmdarheitið íþróttamaður Akureyrar.

Lista yfir þau sem kjörin hafa verið, ásamt öðrum fróðleik má meðal annars finna í samantekt sem Akureyri.net birti fyrir tæpu ári síðan.