Fara í efni
Covid-19

Frá húsgagnasmíði yfir í hljóðfærasmíð

Þessi fagri skápur í Davíðshúsi sem er afmælisgjöf sveitunga til Davíðs Stefánssonar eru að öllum líkindum eftir Friðgeir.

SÖFNIN OKKAR – XXXV

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Friðgeir Sigurbjörnsson, frá Svalbarðsseli í Þistilfirði, lærði ungur smíðar og sérhæfði sig í húsgagnasmíði, smíðaði meðal annars rokka sem enn eru til. Árið 1948 smitaðist hann af berklum og fór á berklahælið í Kristnesi og gat þá ekki lengur sinnt starfi sínu en snéri sér að hljóðfærasmíð og síðar hljóðfæraviðgerðum.

Á Kristnesi byrjaði Friðgeir á því að smíða kassagítara og notaði þá allskonar efni sem hendi var næst, t.d. greiður í þverbönd á gítara. Það lék allt í höndunum á Friðgeiri sem smið en sjálfur lék hann ekki á hljóðfæri, alla vega ekki opinberlega. Hann öðlaðist hins vegar fljótt færni í meðhöndlun hljóðfæra.

Friðgeir Sigurbjörnsson með langspil sem hann smíðaði og Akureyrarbær gaf Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands árið 1981.

Friðgeir rak verkstæði sitt víða um Akureyri en síðustu árin var Hljóðfæraiðjan Strengir í „Rauða húsinu“ svokallaða í miðbæ Akureyrar. Hljóðfærin sem hann smíðaði voru merkt Strengir F.S. Akureyri. Fyrstu árin bjó hann sjálfur til nær allt það efni sem þurfti til hljóðfærasmíðanna, en síðar komst hann í samband við þýskt fyrirtæki sem útvegaði honum þverbönd á gítarana, skrúfur og annað slíkt.

Fyrstu hljóðfærin smíðaði Friðgeir um 1950, fyrst belggítara og sítara, og svo einnig 4-5 kontrabassa, rafmagnsgítara og langspil. Langspilin sem hann smíðaði fóru víða um heim t.d. til Kanada, Bandaríkjanna, Færeyja, Finnlands, Bretlands, Þýskalands og Nýja Sjálands. Fyrir Savannatríóið smíðaði hann t.d. langspil og þegar frú Vigdís Finnbogadóttir forseti kom í opinbera heimsókn til Akureyrar var gjöf bæjarins til hennar langspil úr smiðju Friðgeirs. Alls smíðaði hann rúmlega 130 langspil. Friðgeir var mikið í hljóðfæraviðgerðum með hljóðfærasmíðinni og gerði hann við strengjahljóðfæri fyrir aðila í Sinfóníuhljómsveit Íslands, Tónlistarskólann á Akureyri og annað tónlistarfólk á landinu. Friðgeir lést á Akureyri árið 1983.

Nokkur af hljóðfærum sem Friðgeir smíðaði má sjá á sýningunni Tónlistarbærinn Akureyri sem stendur yfir á Minjasafninu á Akureyri en sýningunni lýkur í haust.

Gítarháls frá Friðgeiri – merktur Strengjum.

Gítarmót sem Friðgeir smíðaði á meðan hann dvaldi á Kristneshæli.