„Ég held að við séum alls ekki of varkár“
Samkomutakmarkanir hérlendis verða óbreyttar næstu tvær vikur, skv. ákvörðun heilbrigðisráðherra. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir telur að alls sé of varlega farið.
Að minnsta kosti 84 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og einn við landamærin. Tölurnar eiga líklega eftir að hækka í ljósi sögunnar; á vef Almannavarna var upphaflega greint frá því að minnst 57 hefðu greinst með veiruna í fyrradag en þegar upp var staðið og öll sýni höfðu verið greind reyndust smitin 141.
Í gær voru 140 manns á Akureyri í sóttkví og 44 í einangrun.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ákvað, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að framlengja gildandi reglugerð um samkomutakmarkanir um tvær vikur, til og með 27. ágúst. Áfram verður því kveðið á um 200 manna fjöldatakmarkanir, 1 metra nálægðarreglu m.a. í verslunum og öðru opinberu húsnæði og óbreyttar reglur um grímunotkun.
Þórólfur Guðnason segist, í samtali við mbl.is í dag, ekki meta stöðuna þannig að tíðni smita sé að rjúka upp en of snemmt sé að setja til um hvort ástandið sé svipað eða hvort tölurnar séu að þokast niður á við. Hann segir veikindi réttlæta áframhaldandi aðgerðir. „Ég held að við séum alls ekki of varkár,“ segir hann.
Þórólfur bendir á að það sé mikilvægt að missa ekki tökin á útbreiðslunni frekar. „Það er af nægu að taka fyrir þessa veiru.“ Með frekari útbreiðslu myndi veiran dreifa sér enn meira til bólusettra og óbólusettra sem eru miklu viðkvæmari bæði fyrir smitum og alvarlegum veikindum.
Samkvæmt gögnum sóttvarnayfirvalda eru líkurnar á því að óbólusettir þurfi að leggjast inn á spítala eða gjörgæslu töluvert meiri en bólusettra.
„Með svipuðum hlutföllum og við höfum séð undanfarið sjáum við að ef tíu prósent þjóðarinnar smitast gætum við fengið mörg hundruð manns inn á spítala og tugi eða hundrað á gjörgæslu. Það sér hver maður að kerfið okkar myndi alls ekki ráða við það.“
Nánar hér á mbl.is