Bólusetningu lokið á hjúkrunarheimilum
Bólusetningu íbúa á hjúkrunarheimilum á Norðurlandi er lokið; búið er sprauta alla tvisvar. Fyrri bólusetning er langt komin hjá fólki á sambýlum, sem er í dagdvöl eða sinnt af heimahjúkrun, skv. upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
Hafist var handa um daginn við að bólusetja 80 ára og eldri sem búa úti í bæ, sú vinna er skammt á veg komin en verður haldi áfram þegar meiri bóluefni berst. Um helmingur allra 80 ára og eldri hafa þegar fengið fyrri bólusetningu en stærsti hluti þess hóps er á hjúkrunar- og dvalarheimilum.
Bólusetning á heilbrigðisstarfsmönnum í framlínu sem sinna bráðaþjónustu er einnig langt komin, búið er að bólusetja sjúkraflutningamenn og þá starfsmenn sem sinna sýnatökum vegna Covid.
Gert er ráð fyrir að þegar næsta sending berst verði þeir lögreglumenn bólusettir sem sinna útköllum, ásamt því að ljúka bólusetningu þeirra sem eftir eru í fyrstu forgangshópum. Eldri borgarar eru næstir í forgangsröð og verður haldið áfram að bólusetja þann hóp eftir því sem bóluefni berst. Vonir standa til að í lok mars verði búið að bólusetja alla eldri en 70 ára.
Í apríl og maí er stefnt að bólusetningu næstu forgangshópa, ef áætlanir um komu bóluefnis ganga eftir; í þeim hópi er fólk eldra en 60 ára, yngra fólk með ákveðnar sjúkdómsgreiningar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn.
Þeim 60 ára og yngri, sem teljast til forgangshópa vegna sjúkdóma, er raðað í hópa eftir gögnum í sjúkraskrám heilsugæslu og Landspítalans. Fólk fær rafrænt boð í bólusetningu og ef það fer framhjá viðkomandi verður haft samband eftir öðrum leiðum. Það verður líka auglýst á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, www.hsn.is, og Facebooksíðu HSN hvaða aldurshóp er verið að bólusetja hverju sinni.
Þeir sem hafa fengið staðfest COVID-19 með PCR greiningar prófi eða mótefnamælingu þurfa ekki að fara í bólusetningu.