Fara í efni
Covid-19

Bólusetning hefst á Akureyri síðdegis

Komnar með bóluefnið! Ásdís Arinbjarnardóttir, til vinstri, yfirhjúkrunarfræðingur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) á Blönduósi og til hægri Elín Árdís Björnsdóttir, deildarstjóri heilsugæslu HSN Sauðárkróki.

Fyrstu Akureyringarnir verða bólusettir gegn Covid-19 í dag og byrjað verður á íbúum Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA). Bóluefni frá lyfjaframleiðandanum Pfizer er á leið til bæjarins og fyrirhugað er að klára bólusetningu íbúa á bæði Hlíð og Lögmannshlíð fyrir kvöldið.

Unnið er að bólusetningunni í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Norðurlands í samstarfi við lækna og hjúkrunarfræðinga hjá ÖA. Eins og þekkt er af umfjöllun fjölmiðla og kynningarfundum sóttvarnalæknis, þá þarf að bólusetja tvisvar og verður seinni bólusetningin eftir þrjár vikur.

Gert er ráð fyrir að framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustu í baráttunni gegn Covid-19 verði bólusett á morgun.

Ekið var af stað með bóluefnið úr Reykjavík í morgun og er það þegar komið í hús sums staðar, til dæmis á Blönduósi og Sauðárkróki.