Fara í efni
Covid-19

Allt sem þú þarft að vita um bólusetningar

Bólusetningin hefur farið fram á slökkvistöðinni á Akureyri og gengið hnökralaust. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fjölmargar spurningar virðast brenna á fólki varðandi bólusetningar fyrir Covid. Vegna þessa birtir Heilbrigðisstofnun Norðurlands í dag á vef sín spurningar af ýmsu tagi – og svör við þeim, sem ættu að koma fólki að góðum notum. Tilkynninguna má lesa hér í heild:

Hvenær er seinni sprautan af Pfizer? 
Oftast er boðað í seinni skammt eftir 3 vikur. Til að hámarka virkni þurfa að lágmarki 19 dagar að líða milli skammta og að hámarki 42. Seinni skammtur innan 6 vikna sleppur.

Hvenær er seinni sprautan af Moderna?
Oftast er boðað í seinni skammt eftir 4 vikur. Til að hámarka virkni þurfa að lágmarki 28 dagar að líða milli skammta og að hámarki 35. Seinni skammtur innan 5 vikna er í lagi. Moderna bóluefninu verður ekki dreift meira út á land.

Hvenær er seinni sprautan af Astra Zeneca?
Oftast er boðað í seinni skammt eftir 12 vikur. Til að hámarka virkni er best að það líði 12 vikur. Ef nauðsyn krefur má hafa styttra bil en vörn er betri með lengra bili. Bil milli skammta má aldrei vera styttra en 4 vikur. Hægt er að mæta í bólusetningu með Astra Zeneca áður en liðnar eru 12 vikur, ef liggur á að ljúka seinni bólusetningu. Ekki þarf að láta vita, bara fylgjast með á vef Heilsugæslunnar hvenær er verið að bólusetja með Astra Zeneca.

Hvað gerist ef ég missi af seinni sprautunni innan tímarammans?
Fáðu þá seinni sprautuna eins fljótt og þú getur. Líklegt er að það sé betra en ekki þó að ekki sé hægt að tryggja fulla virkni.

Hvenær eru ungar konur sem fengu fyrri sprautu af Astra Zeneca bólusettar með seinni skammti af öðru bóluefni? 
Þær verða bólusettar með Pfizer 12 vikum síðar nema þær óski að fá aftur Astra Zeneca.

Ég fékk fyrri sprautu í útlöndum get ég fengið seinni sprautu heima?
Ef það er bóluefni sem notað er á Íslandi er það hægt í flestum tilfellum. Hafa þarf samband við sína heilsugæslu með upplýsingar um fyrri bólusetningu, þegar kominn er tími á seinni bólusetningu.

Ég er boðuð í fyrstu sprautu, get ég fengið seinni sprautu í útlöndum? 
Við getum engu svarað um það. Það fer eftir áfangastað.

Vil ekki Astra Zeneca

Ég fékk boð í Astra en vil það ekki. Hvenær fæ ég annað bóluefni?

Þegar búið er að að bólusetja hópa sem geta ekki fengið Astra Zeneca verður þeim sem hafna Astra Zeneca án rökstuðnings boðin bólusetning með öðrum bóluefnum.

Ég fékk upphaflega boð í Pfizer/Moderna sem ég gat ekki nýtt mér. Nú fæ ég boð í Astra Zeneca og mér er sagt að mér standi ekkert annað til boða? 
Leiðbeiningar og verklag hafa breyst siðan þú fékkst fyrsta boðið. Því færð þú nú boð í Astra Zeneca til að hægt sé að nota Pfizer/Moderna fyrir hópa sem mega ekki fá AstraZeneca.

Vottorð

Hvar fæ ég vottorð um bólusetningu? 
Á mínum síðum á heilsuvera.is. Þú þarft að vita númerið á vegabréfinu þínu og 7 dagar þurfa að hafa liðið frá seinni bólusetningu. Vottorðið er á íslensku, ensku og frönsku og er ókeypis.

Get ég fengið vottorð um að hafa fengið fyrri skammt? 
Á mínum síðum á heilsuvera.is. Þú þarft að vita númerið á vegabréfinu þínu . Á vottorðinu kemur fram dagsetning fyrri skammts og að bólusetningu sé ólokið. Vottorðið er á íslensku, ensku og frönsku og er ókeypis.

Listar og boðun

Ég er ekki með snjallsíma og get ekki opnað strikamerki? 
Þá gefur þú upp kennitölu á bólusetningastað og þér er flett upp í kerfinu.

Ég fékk boð í Reykjavík en er úti á landi. Get ég mætt í minni heimabyggð?

Stundum er það hægt en þú verður að kanna það hjá heilbrigðisstofnuninni á staðnum því oft eru ekki margir skammtar til skiptanna á smærri stöðum.

Ég bý á landsbyggðinni en verð í Reykjavík á bólusetningardag? Get ég mætt þar? 
Oftast getur þú fengið bólusetningu í Reykjavík ef verið er að nota sama bóluefni og þú fékkst boð í.

Ég er í útlöndum og var að fá boð. Get ég fengið tíma þegar ég kem heim? 
Fylgdust með á heimasíðu okkar hvenær er verið að bólusetja þinn árgang.

Hvar get ég tékkað á hvort ég sé á forgangslista? Ég er með sjúkdóm sem ætti að setja mig í forgang en ég hef ekki fengið boð? 
Mikill fjöldi er í forgangshópum og ekki búið að boða alla, það verður gert á næstu vikum.

16 til 18 ára börn með undirliggjandi sjúkdóma? Hvenær eru þau bólusett? 
Við erum að bólusetja þennan hóp þessar vikur og næstu vikur.

Staðfest COVID-19 sýking? Þarf ekki að bólusetja? 
Þeir sem hafa fengið COVID-19 sýkingu fá boð um bólusetningu síðar á árinu.

SMS boð 
Athugið að fremst í SMS boði um bólusetningu kemur fram fornafn þess sem boðið er ætlað.

Ekkert boð eða missti af boði

Ég hef ekki fengið boð í bólusetningu þó minn árgangur sé búinn að fá?

 Þú getur mætt næst þegar er opið hús í bólusetningu fyrir aldurshópa með bóluefni sem hentar þínum aldri/kyni.

Ég er nýr heilbrigðisstarfsmaður og allir á mínum vinnustað fóru í bólusetningu áður en ég byrjaði að vinna? 
Þinn vinnuveitandi leiðbeinir þér með þetta.

Fær maður nýtt boð ef maður mætir ekki með sínum aldurshópi? 
Nei, en þú getur mætt næst þegar er opið hús fyrir þinn aldurshóp.

Ósjúkratryggðir en búsettir á Íslandi: 
Ákvörðun Sóttvarnalæknis er að allir geta fengið bólusetningu hér á landi skv. sínum aldurshóp.