Fara í efni
Covid-19

2024 – Menning og listir í hávegum sem fyrr

Listir og menning hafa skipað stóran sess hjá Akureyri.net á árinu sem er að líða. Auk þess að segja frá sýningum, listahátíðum, tónleikum og helstu viðburðum í bænum, þá höfum við greint frá fréttum er tengjast listalífinu og tekið veglegri viðtöl við ýmsa listamenn á árinu.

Þannig greindi Akureyri.net frá því að listakonan Jonna, Jónborg Sigurðardóttir var valin bæjarlistamaður Akureyrar, Sigríður Örvarsdóttir var ráðin forstöðumaður Listasafnsins en 14 sóttu um starfið.  Marta Nordal lét af störfum sem leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar á árinu og Bergur Þór Ingólfsson tók við. Atli Örvarsson kvikmyndatónskáld hlaut bresku BAFTA verðlaunin fyrir frumsamda tónlist við leikið efni. Verðlaunin voru fyrir tónlist í þáttaröðinni Silo sem sýnd er á Apple TV. 

Atli Örvarsson með BAFTA verðlaunin. 

Ekki nothæfur í neitt nema myndlist

Af stærri viðtölum við listafólk á árinu ber fyrst að nefna viðtal við Kristin G. Jóhannsson listmálara, sem tekið var í tilefni þess að  listmálarinn opnaði sýningu í október í Mjólkurbúðinni sem hann kallaði  Að liðnum sjötíu árum enda voru þá 70 ár síðan hann sýndi fyrst! Í viðtalinu sagði Kristinn m.a. frá því að hann hefði snemma verið ákveðinn í því að gerast listamaður. „Já, þetta var á þeim árum að menn fóru í læknisfræði eða lögfræði, einstaka varð prestur og einhverjir fóru í viðskiptafræði. Ég sá ekki fram á að ég yrði nothæfur í neitt af þessu svo ég hélt mig við bara þetta og fór suður í Handíða- og myndlistaskólann eftir stúdentspróf.“

Rokkbóndinn Helgi Þórsson sagði frá sínu daglega lífi í viðtali á árinu.  Mynd: RH

Rokkbóndi, grafíksafn og þungarokk

Hjónin Hildur María Hansdóttir og Guðmundur Ármann Sigurjónsson, sem safnað hafa grafíklistaverkum í 55 ár, voru í viðtali í september þegar þau opnuðu sýningu í Deiglunni á völdum grafíkverkum úr safni sínu.  Hjónin vilja gjarnan opna grafíksetur á Akureyri en í viðtalinu sögðu þau grafíkina vera mikilvægan þátt í myndlist og menningu sem megi alls ekki deyja út á Íslandi.

Akureyri.net tók líka hús á listakonunni Guðrúnu Höddu Bjarnadóttur á árinu sem rekur galleríið Dyngjuna – listhús að bænum Fífilbrekku í Eyjafjarðarsveit. Hadda, sem hefur mikinn áhuga á þjóðháttum, er ekki bara listakona heldur ræktar hún líka býflugur en býflugnarækt kynntist hún þegar hún bjó í Svíþjóð. 

Þá heimsóttum við líka rokkbóndann Helga Þórsson sem einnig býr í Eyjafjarðarsveit eins og Hadda.  Helgi er meðlimur í sveitinni Helgi og hljóðfæraleikararnir en hann er líka bóndi og leikari hjá Freyvangsleikhúsinu. Í viðtalinu ræddi hann m.a. um það hvernig venjulegur dagur er í lífi hans.  Það var líka rætt við fleira tónlistarfólk á árinu, m.a. norðlenska metalbandið Punks of the Empire sem gerði samning við erlent útgáfufyrirtæki, Sliptrick Records, um útgáfu á níu laga plötu á geisladisk og vínyl. 

Rebekka Kühnis málar á vinnustofu sinni í Vaðlaheiðinni. Mynd: RH

Íslensk náttúra, myndlist og gjörningar

Myndlistarkonan Hrönn Einarsdóttir á sjarmerandi verbúð á Hjalteyri og tók þar á móti blaðamanni í janúar. Hrönn sagði í viðtalinu  að tengingin við Hjalteyri sé aðallega til komin vegna sjósunds. „Ég hef mikið farið í sjóinn. Það er eitthvað við það. Manni líður vel andlega, þetta hefur jákvæð áhrif á sjálfsmyndina og herðir mann svolítið. Ég var vön að fara nálægt Víkurskarðinu til þess að komast í sjó, en svo heyrði ég af því að í fjörunni hérna á Hjalteyri væri heitur pottur,“ segir Hrönn. „Eftir að ég fór að koma hingað í staðinn til þess að fara í sjóinn var eiginlega ekki aftur snúið. Ég heillaðist af staðnum. Þegar ég frétti að þetta litla hús væri til sölu, gat ég ekki annað en eignast það.“

Myndlistarkonan Rebekka Kühnis sagði frá sinni listsköpun á Akureyri.net í nóvember en hún málar náttúrumyndir í vinnustofu sinni í Vaðlaheiðinni og var með stóra sýningu á verkum sínum í Hofi í lok árs. Rebekka er ekki bara myndlistarkona, heldur líka kennari í smíðum og hönnun við Hrafnagilsskóla. Sýningin í Hofi bar nafnið 'Hverfult', en þar kom andleg tenging listakonunnar við íslenska náttúru bersýnilega í ljós.

Þá ræddum við líka við myndlistarmanninn Georg Óskar sem býr í Noregi en kom aftur heim til Akureyrar í haust til að opna sýningu í Listasafninu og eins var gjörningalistakonan Anna Richardsdóttir í viðtali í tilefni þess að hún hóf töku ellífeyris um síðustu mánaðamót. Anna lítur á ellilífeyrinn sem listamannalaun því nú þarf hún ekki lengur að sinna launaðri vinnu til þess að fjármagna list sína. Anna ræddi aðeins um feril sinn sem gjörningalistakona en þó meira um það hvað myndi gerast ef grasrótin á Akureyri fengi veglega peningainnspýtingu. 

Skömmu fyrir jól færði listamaðurinn Kalli, Karl Guðmundsson, Sjúkrahúsinu á Akureyri listaverk að gjöf sem þakklætisvott því hann segir starfsfólk gjörgæsludeildar sjúkrahússins hafa bjargað lífi sínu, ekki bara einu sinni heldur nokkrum sinnum.

Anna Richarsdóttir ræddi um fjármál listamanna á árinu og fjárhagslegar áskoranir sem þeir standa frammi fyrir. 

Leikstjórar og ljóðskáld

Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri Litlu hryllingsbúðarinnar og jafnframt nýr leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, var í viðtali í október. Þar ræddi hann ekki aðeins um Litlu Hryllingsbúðina heldur sagði hann líka frá því að upphaflega ætlaði hann sér bara að koma norður til þess að leikstýra verkinu, sem fráfarandi leikhússtjóri, Marta Nordal, valdi. Þegar hún svo sagði störfum sínum lausum, sótti hann um stöðu leikhússtjóra og fékk hana. Rætt var við annan leikstjóra hjá Leikfélagi Akureyrar í byrjun árs, Hríseyinginn Grétu Kristínu Ómarsdóttiur. sem leikstýrði And Björk, of course, en hún sagði m.a. í því viðtali að það er erfitt að trúa því í dag, að allar manneskjur séu í grunninn góðar. Sigríður Soffía Níelsdóttir, dansari, danshöfundur og ljóðskáld, steig á svið í Hofi í mars ásamt sjö öðrum konum, leikurum og dönsurum. Ljóðabók hennar, Til hamingju með að vera mannleg, öðlast þá líf á sviðinu sem dansverk. Bókina samdi Sigríður Soffía eftir að hún greindist með brjóstakrabbamein og gekk í gegnum meðferð í miðjum heimsfaraldri. Sigríður ræddi við Akureyri.net um ljóðabálkinn og fleira.

Sigríður Soffía Níelsdóttir, dansari, danshöfundur og ljóðskáld sagði lesendum frá dansverki og ljóðabók sem hún gaf út. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Norðlensk ljóð og hönnun

Bókaútgáfan Tindur á Akureyri gaf á árinu út ljóðabókina Mörk eftir Stefán Þór Sæmundsson, sem lesendur Akureyri.net ættu að þekkja sem afkastamikinn pistlahöfund. Af því tilefni var rætt við höfundinn. Þá sendi skáldið Sigurður Ingólfsson frá sér ljóðabókina Mold á árinu og var rætt stuttlega við hann að því tilefni. Bókin er prýdd teikningum Péturs Péturssonar, prófessors emerítus. Við ræddum við ungan og upprennandi skartgripahönnuð á Hjalteyri, Kötlu Karlsdóttur, sem hannar skartgripi og teiknar Maríumyndir.

Þá var nýtt fatamerki kynnt til leiks í nóvember á tískusýningu í Deiglunni en á bak við það standa tveir ungir piltar þeir Helgi Hrafn Magnússon og Kjartan Gestur Guðmundsson, og þeir ætla sér stóra hluti í bransanum en þeir hanna undir heitinu CRANZ.  Og meira af fatahönnun, Halla Tómasdóttir var formlega sett í embætti forseta Íslands þann fyrsta ágúst. Halla var hin glæsilegasta við innsetningarathöfnina en hún klæddist ljósum kjól sem Akureyringurinn og fatahönnuðurinn Björg Ingadóttir hannaði. Akureyri.net sagði að sjálfsögðu frá þessu flotta dressi. 

Söfnin okkar – Tónlistarbærinn – Bókakosturinn

Vert er að minna á fasta menningarliði sem birtast vikulega á Akureyri.net. Gamla myndin, sem birst hefur alla föstudaga síðan fjölmiðillinn var endurvakinn í nóvember 2020, nýtur gríðarlegra vinsælda og einnig vikulegt innlit í eitthvert safna bæjarins, þar sem lesendum gefst tækifæri alla fimmtudaga til að sjá áhugverðan safngrip.

Fyrsta innlit Akureyri.net á safn var síðla árs 2023 og á þessu ári, í nýliðnum nóvember, bættust tveir skemmtilegir liðir við: annars vegar vikuleg upprifjun á einu og öðru úr magnaðri tónlistarsögu bæjarins, hins vegar segja starfsmenn Amtsbókasafnsins frá bók eða bókum:

Dálkur sem kallast Af bókum birtist á hverjum þriðjudegi og Tóndæmi birtist alla miðvikudaga.

Gamla myndin

Söfnin okkar

Tónlistarbærinn Akureyri

Bókakosturinn

 

    • Hér hefur verið nefndur hluti þess menningarefnis sem Akureyri.net birti á árinu. Þið finnið meira með því að smella á flokkinn MENNING á forsíðu vefsins.