Fara í efni
Covid-19

200 mega sækja kirkju, horfa á leiklist og íþróttir

Handboltalið Þórs og KA hafa mæst tvisvar í íþróttahöllinni undanfarið, þar sem enginn var á áhorfendapöllunum nema fáeinir stjórnarmenn og fjölmiðlafólk; þann „hóp“ mátti telja á fingrum beggja handa. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Almennum samkomutakmörkunum verður breytt frá og með morgundeginum, þannig að 50 manns mega koma saman í stað 20. Allt að 200 áhorfendur verða leyfðir á íþróttaviðburðum, jafn margir mega sækja leikhús, söfn og koma saman í kirkju. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, kynnti nýja reglugerð í þessa veru eftir fund ríkisstjórnarinnar í morgun. Ríkisstjórnin féllst á allar tillögur sóttvarnarlæknis.

Varðandi íþróttahús og leikhús þarf fólk að geta setið í sætum, einn metri að vera á milli þeirra sem teljast ótengdir og upplýsingar að vera fyrir hendi um hvern og einn. Einnig er fólki gert að bera grímur. Sé ekki hægt að fara eftir þeim reglum gilda áfram 50 manna fjöldatakmarkanir.

Hlutfall þeirra sem vera mega í líkamsræktarstöðvum og sundlaugum samtímis verður 75% af mögulegum hámarksfjölda, en undanfarið hefur verið miðað við 50%. Þá er veitingastöðum heimilt að hafa opið klukkutíma lengur en til þessa – til klukkan 23.00.

Staðnám verður aukið í skólum og reglur um félagslíf rýmkaðar. Í tilkynningu er eftirfarandi tekið fram:

  • Almennt verður heimilaður hámarksfjöldi nemenda 150 í hverju rými og blöndun milli sóttvarnahólfa heimil á öllum skólastigum.
  • Regla um nándarmörk verður einn metri í stað tveggja og gildir það jafnt milli nemenda og starfsfólks.
  • Aðeins þarf að bera grímur ef ekki er unnt að virða eins metra regluna.
  • Á öllum skólastigum öðrum en á háskólastigi verður foreldrum, aðstandendum og öðrum utanaðkomandi heimilt að koma inn í skólabyggingar, að uppfylltum reglum um sóttvarnir.