Fara í efni
Bókakosturinn

Þjónustusamningur vegna Amtsbókasafnsins

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, og Þórunn Sif Harðardóttir, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps. Mynd: Ragnar Hólm - akureyri.is.

Undirritaður hefur verið þjónustusamningur milli Akureyrarbæjar og Svalbarðsstrandarhrepps um að íbúum hreppsins verði veitt fullt aðgengi að safnakosti og þjónustu Amtsbókasafnsins á Akureyri.

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps ákvað í september að loka almenningsbókasafni Svalbarðsstrandarhrepps, en jafnframt að efla skólabókasafn sveitarfélagsins. Bókasafninu var lokað frá og með 1. nóvember. Á sama tíma óskaði sveitarstjórnin eftir viðræðum við Akureyrarbæ um þjónustusamning við Amtsbókasafnið fyrir íbúa hreppsins. Bæjarráð Akureyrarbæjar tók vel í erindi Svalbarðsstrandarhrepps og skiluðu viðræður áðurnefndri niðurstöðu, þjónustusamningi milli sveitarfélaganna.

Greint er frá því í frétt á vef Akureyrarbæjar að íbúar með lögheimili í Svalbarðsstrandarhreppi greiði fyrir þjónustu samkvæmt gjaldskrá safnsins líkt og þeir væru með lögheimili í Akureyrarbæ. Amtsbókasafnið veitir þar með íbúum Svalbarðsstrandarhrepps sömu þjónustu og íbúum Akureyrarbæjar, aðgang að safnkosti sínum og annarri þjónustu sem safnið hefur upp á að bjóða hverju sinni.