Góð leið til að kynnast Marvel heiminum

AF BÓKUM – 24
Í dag skrifar Reynir Elías Einarsson_ _ _
Marvel teiknimyndasöguheimurinn virðist oft frekar óaðgengilegur og flókinn. Hvar skal byrja og í hvaða röð skal lesa eru spurningar sem eiga fyllilega rétt á sér og getur verið erfitt að svara. Stefna útgefandans að gefa út sem flestar bækur og endurútgefa sögur í hinum og þessum samsetningum hjálpar ekki til. Mig langar því að mæla með bók sem getur verið góður upphafspunktur.
Marvels er stök bók, þ.e. ekki framhald af fyrri bókum og það þarf ekki að lesa aðrar bækur að henni lokinni. Hún kom upphaflega út í fjórum blöðum árið 1994 sem var síðan safnað saman í kiljuútgáfu 1995. Höfundur sögunnar er Kurt Busiek og Alex Ross málar myndirnar og eru þeir báðir með þeim virtustu í bransanum. Teikningarnar í Marvels eru alls ekki dæmigerðar fyrir teiknimyndasögur sem flestar eru litaðar með stafrænni tækni í dag. Alex Ross handmálaði hverja einustu mynd sem gefur öllum persónum aukið líf og má segja að hver rammi sé listaverk út af fyrir sig. Sagan er ekki ofurhetjusaga í hefðbundnum skilningi. Jú, ofurhetjur koma við sögu en söguhetjan að þessu sinni er „everyman“ Phil Sheldon, blaðamaður og ljósmyndari. Um linsu ljósmyndarans fær lesandinn að sjá þekkta atburði úr Marvel heiminum frá sjónarhorni venjulegs manns. Að hafa hann sem söguhetjuna gerir bókina aðgengilegri og er það sniðug leið til að gefa lesendum tækifæri til að samsama sig með aðalpersónunni á auðveldari hátt en ef hún væri gædd ofurkröftum.
Ef þú ert í þeim sporum að langa til að kynnast Marvel heiminum betur, en veist ekki hvar skal byrja þá mæli ég sérstaklega með Marvels. Fyrir sérfræðinga sem þekkja söguna, en vilja aukna dýpt eða nýtt sjónarhorn á þekkta atburði, er þessi bók líka fyrirtak. Svo fyrir þau sem finnst DC heimurinn meira spennandi en Marvel þá langar mig að nefna í lokin bókina Kingdom Come, útgefna litlu síðar. Hún er álíka stórvirki sem einblínir á persónur DC. Einnig með Alex Ross við stjórnvölinn og er auðvitað til á Amtsbókasafninu.