Fara í efni
Bogfimi

Sanngjarn sigur SA á Íslandsmeisturum SR

Mynd úr leik liðanna í úrslitakeppninni síðastliðið vor. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Karlalið SA í íshokkí vann lið Skautafélags Reykjavíkur nú síðdegis, 4-2, í Skautahöllinni á Akureyri. Sanngjarn og kærkominn sigur eftir tvo tapleiki í röð hjá Akureyrarliðinu sem situr þó enn í 3. sæti Toppdeildar karla, en á tvo leiki inni á liðin fyrir ofan.

SA náði forystunni með marki Hafþórs Andra Sigrúnarsonar snemma í fyrstu lotunni. SR jafnaði um miðja aðra lotu, en SA svaraði um hæl þegar SA var tveimur leikmönnum fleiri og Unnar Hafberg Rúnarsson skoraði. Ef til vill má segja að lengst af hafi verið leikur markvarðanna og refsinganna, minna skorað en oft áður í leikjum þesssara liða, en aftur á móti fengu liðin samtals 12 stinnum tveggja mínútna refsingar bara í annarri lotunni, svo dæmi sé tekið. Allt tók þetta tíma og leikurinn varð því nokkru lengri en venjan er, sem aftur seinkaði leik kvennaliða þessara félaga sem átti að hefjast kl. 19:30.

Munurinn var eitt mark alveg fram í miðja þriðju lotu, en þá komu tvö mörk frá SA á rúmri einni og hálfri mínútu. Fyrst skoraði Andri Már Mikaelsson og kom heimamönnum í 3-1 og Ormur Jónsson svo skömmu síðar í 4-1. SR-ingar minnkuðu muninn í tvö mörk með marki þegar 1:22 mínútur voru eftir og voru tvisvar mjög nálægt því að minnka muninn í eitt mark skömmu síðar, en lukkan var með heimamönnum sem náðu að sigla sigrinum í höfn.

SA

Mörk/stoðsendingar: Unnar Hafberg Rúnarsson 1/1, Hafþór Andri Sigrúnarson 1/0, Andri Már Mikaelsson 1/0, Ormur Jónsson 1/0, Dagur Jónasson 0/1, Atli Sveinsson 0/1, Heiðar Gauti Jóhannsson 0/1, Halldór Skúlason 0/1, Birkir Einisson 0/1, Matthías Már Stefánsson 0/1.
Varin skot: Róbert Steingrímssn 25 (92,6%). 
Refsimínútur: 18.

SR

Mörk/stoðsendingarI: Hákon Marteinn Magnússon 1/1, Kári Arnarsson 1/0, Haukur Karvelsson 0/1.
Varin skot: Jóhann Ragnarsson 39 (90,7%).
Refsimínútur: 16.

Með sigrinum fer SA upp í níu stig, en er áfram í 3. sætinu. SA hefur lokið fimm leikjum, en Fjölnir er í 2. sætinu með 11 stig úr sjö leikjum og SR áfram á toppnum með 15 stig úr sjö leikjum.

Upptöku af leiknum má sjá í spilaranum hér að neðan: