Fara í efni
Bogfimi

Hokkí og handbolti dag – einum leik frestað

Tvö akureyrsk handboltalið og eitt íshokkílið spila leiki í Íslandsmótum í dag og kvöld ef veður leyfir.

Fjögur Akureyrarlið voru með leiki á dagskrá sinni í dag, tvö heima, eitt í Hafnarfirði og eitt í Eyjum, en leiknum í Eyjum hefur verið frestað. Tímamótaleikur í íshokkíinu þegar hið nýja Skautafélag Hafnarfjarðar (SFH) sendir lið sitt norður til að mæta karlaliði SA í Toppdeildinni. Handboltafólkið í KA/Þór og KA verður einnig í eldlínunni í dag, KA/Þór með heimaleik gegn Fjölni, karlalið KA mætir FH í Hafnarfirðinum.

Handbolti á Akureyri og í Hafnarfirði

FH-ingar eru á toppi efstu deildar karla, Olísdeildarinnar, með 13 stig eins og Afturelding og Fram. FH og Afturelding hafa spilað níu leiki, en Fram tíu. KA er hins vegar nær hinum enda deildarinnar, er sem stendur í 10. sæti með fimm stig úr níu leikjum, eins og HK sem er sæti neðar.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Kaplakriki í Hafnarfirði kl. 18
    FH - KA

KA/Þór er á toppi næstefstu deildar kvenna, Grill 66 deildarinnar, með 13 stig eftir fyrstu sjö leikina og er eina taplausa liðið í deildinni. Fjölnir er nær hinum endanum, er í 9. og næstneðsta sætinu með tvö stig úr sjö leikjum. Það er því ekki óeðlilegt að búast við heimasigri í leik kvöldsins.

  • Grill 66 deild kvenna í handknattleik
    KA-heimilið kl. 19
    KA/Þór - Fjölnir

Þórsarar eru á toppi næstefstu deildar karla, Grill 66 deildarinnar, með tíu stig úr sex leikjum, hafa unnið fimm leiki og tapað einum. Þeir áttu að sækja Handknattleiksbandalag Heimaeyjar, HBH, heim í dag, en ekki verður af því að þessu sinni. HBH hefur unnið einn leik af fimm og er í 7. sætinu.

  • Grill 66 deild karla í handknattleik
    Íþróttamiðstöðin í Vestmannaeyjum - gamli salur kl. 17:30
    HBH - Þór - FRESTAÐ

Hafnfirðingar með hokkílið

Á Íslandi eru aðeins þrjár skautahallir, á Akureyri, í Egilshöll og í Laugardalnum, en félögin sem taka þátt í Íslandsmóti karla, Toppdeildinni, eru fjögur. Í gegnum tíðina hafa félögin stundum teflt fram tveimur liðum og ný lið orðið til, en lifað í skamman tíma eins og þegar hópur leikmanna tók sig saman og spilaði undir merkjum Narfa frá Hrísey og svo þegar Skautafélagið Esjan varð til í Reykjavík. Áherslan er á að minnst fjögur lið taki þátt í Íslandsmótinu enda er það grunnurinn að því að karlalandslið Íslands geti verið með í EM og HM. Nýjasti meðlimurinn í íshokkífjölskyldunni á heimili í Hafnarfirði, en ekkert skautasvell og æfa liðsmenn fram undir miðnætti í Egilshöllinni þar sem ekki eru aðrir tímar lausir. Óhætt að fullyrða að þörf er fyrir eina höll í viðbót, hið minnsta.

Það verður því tímamótaleikur í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld, eins og áður sagði, þegar lið Skautafélags Akureyrar mætir liði Skautafélags Hafnarfjarðar í fyrsta skipti. Leikurinn er skráður heimaleikur SFH samkvæmt leikjadagskrá Íshokkísambandsins, en leikinn á Akureyri.

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
    SFH - SA