Bogfimi
Feðgar mættust í gær í Kjarnafæðismótinu
12.12.2024 kl. 13:45
Feðgarnir sem mættust í gær; Steinþór Freyr Þorsteinsson, 39 ára leikmaður Völsungs og KA-maðurinn Emil Steinþórsson, 16 ára. Mynd af Facebook síðu Knattspyrnudómarafélag Norðurlands.
Feðgar mættust í Kjarnafæðismótinu í knattspyrnu í fyrsta skipti í gær þegar KA 3 og Völsungur 2 áttust við. Það voru Steinþór Freyr Þorsteinsson, leikmaður Völsungs sem er 39 ára og 16 ára sonur hans, Emil Steinþórsson KA maður.
Steinþór Freyr, sem lék í nokkur ár með KA og er fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður, hafði betur í gær því Völsungar frá Húsavík sigruðu í leiknum 2:0
Kjarnafæðismótið, árlegt æfingamót á vegum Knattspyrnudómarafélags Norðurlands, hófst 4. desember með leik KA og Þórs 2 sem KA vann 2:0. Það er eini leikurinn sem farið hefur fram í A-riðli A-deildar en næstu leikir eru: KA og Höttur/Huginn annað kvöld kl. 20, Höttur/Huginn og KF mætast á laugardaginn kl. 19 og kl. 15 á sunnudaginn leika Þór 2 og KF. Það eru síðustu leikir ársins í riðlinum.
Allir leikirnir mótsins í vetur fara fram í Boganum.
Einum leik er lokið í B-riðli A-deildar, Þór vann Dalvík 3:1. Tveir leikir eru á dagskrá á sunnudaginn í B-riðli: KA 2 - Þór og Magni - Völsungur. Ekki verður leikið aftur í riðlinum fyrr en í janúar.
Einum leik er lokið í B-deild, KA3 og Völsungur2 mættust og höfðu Húsvíkingarnir betur, 2:0. Í kvöld kl. 19 mætast Hamrarnir og Þór3 í B-deildinni.
Kvennadeild Kjarnafæðismótsins hefst á sunnudaginn þegar Þór/KA mætir Tindastóli frá Sauðárkrókikl. 13. Það er eini leikurinn fyrir jól.