Fara í efni
Blöndulína 3

Flókið verkefni – ekki óeðlilega langur tími

Mynd af Akureyrarflugvelli: Hörður Geirsson

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, segir að verið sé að ljúka hönnun nýrra flugferla fyrir Akureyrarflugvöll vegna lendinga úr suðri. Ef ekkert óvænt komi upp í prófunum sé stefnt að gildistöku þeirra 15. maí í vor eða í síðasta lagi næsta sumar. 

Breytingin gerir það að verkum að mögulegt verður að lenda í verra skyggni en nú.

Bæjarráð Akureyrar lýsti í síðustu viku yfir áhyggjum með seinagang við hönnun umræddra aðflugsferla. Þörf á úrbótum hefði lengi blasað við, málið legið á borði Isavia síðan 2020 og skv. reglum sem stjórnvöld hafa fullgilt hefði átt að ljúka verkinu fyrir 25. janúar á þessu ári. Bæjarráð harmaði þessa seinkun og skoraði á Isavia að ljúka verkinu sem fyrst.

Akureyri.net leitaði viðbragða Isavia Innanlandsflugvalla eftir umfjöllun bæjarráðs og fékk skriflegt svar frá Sigrúnu Björk. Hún segir að málið sem snýr að aðflugsferlum við Akureyrarflugvöll hafi ekki legið á borði Isavia Innanlandsflugvalla frá árinu 2020 heldur „hófst verkefnið árið 2022 og hefur því staðið í rúm tvö ár – sem er ekki óeðlilega langur tími fyrir flókið verkefni af þessu tagi.“

Í svari Sigrúnar Bjarkar segir einnig að vissulega sé tiltekið í reglugerðum að fyrir flugbrautir með nákvæmnisaðflug átti að vera komið aðflug byggt á gervihnattaleiðsögu – svokallað RNP ACH – „þar sem því væri við komið,“ þann 25. janúar á þessu ári, en ekki væri hægt að koma á slíku aðflugi á Akureyrarflugvelli „vegna landfræðilegra aðstæðna.“ Í reglugerðum segði hins vegar hvergi að ef aðstæður séu þannig „eigi að hanna RNP-AR (aðflug byggt á gervihnattaleiðsögu og sem þarfnast sérstaks samþykkis bæði flugvélaframleiðanda sem og eftirlitsaðila) í staðinn heldur megi hanna RNP-AR.“ Það er umrætt RNP-AR sem unnið er að.
_ _ _

Svar Sigrúnar er svohljóðandi í heild:

Aðflugsferlar við Akureyrarflugvöll hafa verið til umræðu í aðdraganda komandi Alþingiskosninga og jafnframt bókaði Bæjarráð Akureyrar nýverið um sama mál. Tel ég því rétt að skýra tilurð og stöðu þessa verkefnis.

Fyrst af öllu vil ég árétta að Akureyrarflugvöllur er góður og öruggur flugvöllur skipaður þrautþjálfuðu fólki bæði í flugumferðarþjónustu og í flugvallaþjónustu. Flugsamgöngur við völlinn hafa gengið vel, bæði í millilanda-og innanlandsflugi. Auðvitað geta alltaf skapast veðuraðstæður sem hamlað geta flugi en það er hlutur sem við ráðum lítið við.

Rétt er að benda á að málið sem snýr að aðflugsferlum við Akureyrarflugvöll hefur ekki legið á borði Isavia Innanlandsflugvalla frá árinu 2020 heldur hófst verkefnið árið 2022 og hefur því staðið í rúm tvö ár – sem er ekki óeðlilega langur tími fyrir flókið verkefni af þessu tagi.

Á flugvellinum hefur verið notuð um langa hríð skiparatsjá til aðstoðar við aðflugið. Hún er orðin gömul og er rekin á undanþágum og ljóst var að hún gæti ekki þjónað flugvellinum til framtíðar. Isavia Innanlandsflugvellir og Isavia ANS (Flugleiðsaga) settu af stað þróunarverkefni árið 2022 til að skoða þær úrbótaleiðir sem myndu taka við ratsjáraðfluginu. Verkefnið var unnið í góðri samvinnu við innlenda flugrekendur. Þar var farið yfir kostina í stöðunni og aðstæður greindar.

Áramótin 2023/2024 var lokið við frumhönnun á tveimur tegundum ferla, RNP-AR (Authorization required) og A-RNP (Advanced RNP) til að skoða fýsileika og lágmörk. Þess má jafnframt geta að þetta verða fyrstu ferlar sinnar tegundar sem eru hannaðir hér og innleiddir. Fundað var með flugrekendum til að kynna niðurstöður og fá þeirra skoðanir og hugmyndir. Þar komu gagnlegar umsagnir sem nýttust við frekari þróun. Ferlið er hins vegar flókið og á fundunum með flugrekendum komu fljótt breyttar áherslur bæði vegna tilkomu EasyJet og nýs flugvélaflota og breytinga hjá Icelandair.

Verið er að ljúka hönnun flugferlanna. Að því loknu þarf að staðfesta þá, ljúka flugprófunum, fara yfir öryggisferla flugumferðarþjónustu og fá samþykki Samgöngustofu. Þessi vinna er í fullum gangi. Að loknu þessu ferli sem ekki er með nokkrum hætti hægt að stytta eða gefa neinn afslátt á, verða ferlarnir teknir í gildi. Ef ekkert óvænt kemur upp í prófunum og öryggiferlum er stefnt að gildistöku flugferlanna þann 15. maí næstkomandi eða í síðasta lagi um sumarið 2025. Þau atriði sem gætu haft áhrif á endanlega dagsetningu gildistöku eru m.a. flugprófanir sem gætu þurft að fara fram að hluta í hermi.

Þessir ferlar verða til viðbótar öðrum aðflugsferlum við flugvöllinn. Varhugavert er að fullyrða að aðrir útgefnir flugferlar séu óöruggir. Réttara er að nákvæmni eykst með nýrri tækni. Það er alveg ljóst að það koma ekki allir flugrekendur til með að nýta sér þá. Það eru gerðar ríkari kröfur til flugrekendanna um búnað loftfara og aukna sérhæfða kostnaðarsama þjálfun flugmanna þeirra sem fer fram bæði í hermi og á staðnum og allsendis óvíst er að allir flugrekendur leggi í slíkan kostnað vegna Akureyrarflugvallar fyrir sinn flugmannahóp. Í framhaldinu taka flugrekendur ferilinn inn í sína herma og þurfa samþykki bæði flugvélaframleiðanda og eftirlitsaðila. Bratt ILS (nákvæmnisaðflug) er að Akureyraflugvelli sem kallar ekki á sérstaka þjálfun en nauðsynlegt er engu að síður að flugmenn hafi reynslu af að fljúga slíkt aðflug annars staðar og þá reynslu hafa t.a.m. flugmenn Easy Jet aflað sér á öðrum flugvöllum í Evrópu sem svipar til Akureyrar.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að vissulega er tiltekið í reglugerðum að fyrir flugbrautir með nákvæmnisaðflug (ILS) átti að vera komið RNP APCH (aðflug byggt á gervihnattaleiðsögu), þar sem því væri við komið, þann 25. janúar á þessu ári. En það er ekki hægt að koma fyrir vegna landfræðilegra aðstæðna aðflugi samkvæmt RNP APCH staðli á flugbraut 01 á Akureyrarflugvelli. Í reglugerðum segir hins vegar hvergi að ef aðstæður séu þannig að það eigi að hanna RNP-AR (aðflug byggt á gervihnattaleiðsögu og sem þarfnast sérstaks samþykkis bæði flugvélaframleiðanda sem og eftirlitsaðila) í staðinn heldur megi hanna RNP-AR.

Þess vegna hefur til fjölda ára verið notaður ILS búnaður og Localizer ásamt gömlu ratsjánni við Akureyrarflugvöll fyrir aðflug. Þessi breyting á ferlum er flókið flugtæknilegt verkefni sem kallar á aðkomu fjölmargra hagaðila og eftirlitsaðila.

Við hjá Isavia Innanlandsflugvöllum og Isavia ANS (Flugleiðsaga) höfum því lagt mikla vinnu á okkur til að þróa besta kostinn fyrir og í miklu samráði við alla hlutaðeigandi. Eins og fyrr segir á þeirri vinnu að vera lokið með gildistöku nýrra flugferla um mitt næsta ár.

Sigrún Björk Jakobsdóttir,
framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla