Fara í efni
Blak

Sundpróf hjá Lárusi Rist á Akureyri 1907

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XLVIII

Í fyrradag voru 60 ár síðan Lárus Rist íþróttakennari og sundkappi lést. Hann var fæddur 19. júní árið 1879 og lést 10. október 1964.

Þessi dásamlega mynd er af Lárusi og hópi manna sem þreytti sundpróf hjá honum árið 1907, ári eftir að hann settist að á Akureyri. Aftan á myndina, sem ritstjóra Akureyri.net áskotnaðist fyrir nokkrum árum, eru vélrituð nöfn allra á myndinni sem gerir hana vitaskuld mun  skemmtilegri og verðmætari en ella.

Lárus Jóhannsson Rist fæddist að Seljadal í Kjós. Foreldrar hans voru Jóhann Rist Sveinbjarnarson og kona hans Ingibjörg Jakobsdóttir ljósmóðir. Hún lést þegar Lárus var á þriðja og fluttist feðgarnir nokkrum árum síðar norður í Eyjafjörð þar sem Lárus ólst upp.

Einkaskjalasafn Lárusar er skráð og varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Á vef safnsins segir:

Eftir fimleika- og sundkennaranám í Danmörku settist Lárus að á Akureyri og fór að kenna við Gagnfræðaskólann. Hann kom með nýja strauma í íþróttalíf Akureyringa og ekki hvað síst sundíþróttina.

Veturinn 1907 strengdi Lárus þess heit að synda yfir Eyjafjörð alkæddur, í sjófötum og í sjóstígvélum. Hann lét verða af því um sumarið (6. ágúst).

„Hljóp hann út af Oddeyrartanganum í öllum þeim klæðum, er að ofan greinir og synti frá landi allmarga faðma; kastaði hann þá af sér klæðunum, og er það allra manna mál, er sáu að það hafi hann gert með frábærum fimleik; ... Eigi kemur mönnum ... saman um, hve lengi hann hafi verið að synda yfir fjörðinn, en Steingrímur læknir Matthíasson, er fylgdi honum í bát yfir fjörðinn, hefir sagt oss, að það hafi numið 36 mínútum. Sumir segja 33.“ (Norðri 9.8.1907)