Fara í efni
Blak

Stjarnan: Öllum sé sýnd sama virðing

Strákarnir í C-liði 4. flokks KA eftir að þeir unnu Stjörnuna 14. september.
Knattspyrnudeild Stjörnunnar í Garðabæ segir að félagið geri ekki greinarmun á getustigi þegar komi að metnaði við framkvæmd leikja og stefna félagsins sé að öllum iðkendum sé sýnd sama virðing. Þjálfarar C-liðs 4. flokks og forráðamenn félagsins hafi því ákveðið að kæra leik við KA 14. september þannig að mistök sem gerð voru við framkvæmd leiksins muni ekki endurtaka sig.
 
Þetta kemur fram í yfirlýsingu Stjörnunnar í dag. KA og Stjarnan mættust í úrslitaleik C-liða 4. flokks á Akureyri 14. september þar sem jafntefli varð. Framlengingin var styttri en reglugerð segir til um og því fer hún fram að nýju á morgun; Stjörnumenn koma norður á kostnað KA og leikið verður í  2 x 10 mínútur, eins og Akureyri.net fjallaði um í gær. Leikmenn 4. flokks eru 12 og 13 ára.
 
 
Yfirlýsing knattspyrnudeildar Stjörnunnar er svohljóðandi:
 
Umtalsverð umfjöllun hefur átt sér stað í kjölfar þess að 4. flokkur karla spilaði úrslitaleik á móti KA þar sem framkvæmd leiksins fór úrskeiðis hjá KA. Það er gríðarlega mikilvægt að því sé haldið til haga að við sem félag gerum ekki greinarmun á getustigi þegar kemur að metnaði við að framkvæmd leikja sé í lagi og þá allra síst úrslitaleikur Íslandsmóts. Sú umræða sem hefur skapast á samfélagsmiðlum í kjölfarið er byggð á upphrópunum og eftir atvikum, röngum upplýsingum.
 
Ljóst er að bæði leiktími framlengingar var helmingi styttri en á að vera skv. reglum KSÍ og að fjöldi vítaspyrna var umtalsvert færri en reglur gera ráð fyrir. Það eru vonbrigði að forráðamenn KA hafi ekki sýnt þann drengskap að leggja inní umræðuna sem hefur skapast þá einföldu staðreynd að menn hafi gert mistök og leiðrétta þær rangfærslur sem koma þarna fram. Í þessu tilviki sem og öðrum þá er það stefna Stjörnunnar að öllum iðkendum sé sýnd sama virðing á hvaða getustigi sem er hvort heldur sem er í framkvæmd leikja eða í þeirri umræðu sem skapast hefur eftir á. Sannleikurinn er sá að þjálfarar liðsins og forráðamenn félagsins tóku þá ákvörðun að kæra úrslitin þannig að atvik sem þetta myndi ekki endurtaka sig.
 
Áfram fótboltinn og gerum öllum jafn hátt undir höfði og vöndum okkur í því mikilvæga starfi sem okkur er treyst fyrir.
 
Skíni Stjarnan!
 

Því má bæta við að KSÍ hefur farið fram á að leikmenn C-liðs KA skili í dag verðlaunapeningunum, sem þeir fengu eftir sigur gegn Stjörnunni í leiknum 14. september. Þeir verða afhentir á nýjan leik á morgun.