Fara í efni
Blak

Kvennalið KA meistari meistaranna í blaki

Kvennalið KA er meistari meistaranna í blaki eftir 3-2 sigur á bikarmeisturum Aftureldingar. Myndin er af Facebook-síðu Knattspyrnufélags Akureyrar.

Kvennalið KA í blaki vann í dag opnunarleik blakleiktíðarinnar þegar liðið mætti Aftureldingu í leik um titilinn meistara mestaranna, þar sem mætast Íslands- og bikarmeistarar frá síðastliðnu tímabili. Afturelding náði 2-1 forystu, en KA vann tvær síðustu hrinurnar og þar með viðureignina, 3-2. 

KA vann fyrstu hrinuna, 25-9, en Afturelding tók næstu tvær, 25-20 og 25-18. KA jafnaði með því að vinna fimmtu hrinuna 25-9 og svo oddahrinuna 15-8. KA-stelpurnar bættu þar með enn einum titlinum í safnið en það er að verða erfitt að hafa tölu á þeim undanfarin ár. Þær eru ríkjandi Íslandsmeistarar og nú meistarar meistaranna. 

Stutt er í að deildarkeppnin hefjist, en fyrsti leikur KA er heimaleikur gegn Álftanesi laugardaginn 21. september.


Ríkjandi Íslandsmeistarar í blaki kvenna og nú meistarar meistaranna, KA. Myndin er af vef félagsins.

Í upphitunarpistli sem birtur var á vef KA í gær um komandi blaktímabil er farið yfir undirbúningstímabilið og vonir og væntingar fyrir veturinn. Þar segir meðal annars: 

„Stelpurnar okkar eru heldur betur klárar í slaginn og tókum við púlsinn á þeim Amelíu Ýr og Lovísu Rut fyrir fyrsta leik tímabilsins.

Hið svokallaða „pre season“ hefur farið vel af stað hjá okkur en við höfum fengið tvær efnilegar stelpur að austan í hópinn sem eru að koma norður í skóla en það eru þær Sóldís Júlía og Diljá Mist. Þá hefur Lucia Martín Carrasco einnig bæst í hópinn en hún spilaði með Þrótti Fjarðabyggð á síðasta tímabili og erum við spenntar að fá hana norður.

Alls voru þrjár stelpur í liðinu okkar óléttar á seinasta tímabili en það voru systurnar Helena og Heiða og síðan Valdís Kapitola en Valdís stefnir á að koma sterk inn í seinni hluta tímabilsins. Arnrún Eik sleit krossband á síðustu leiktíð en er að koma sterk til baka og frábært að sjá hana koma aftur.

Annars er hópurinn afar sterkur enda kjarninn í liðinu búinn að vera saman undanfarin ár. Það ríkir mjög góð stemning í hópnum og ekki skemmdi fyrir frábær ferð til Spánar í sumar þar sem við héldum út í ógleymanlegt brúðkaup hjá Paulu og Mateo.

Við erum spenntar að hefja nýtt tímabil og getum ekki beðið eftir að byrja. Við höfum verið afar sigursælar undanfarin ár en það er áfram mikið hungur í hópnum og stefnan sett hátt. Hlökkum til að sjá ykkur á pöllunum í vetur!“


Mynd af Facebook-síðu Knattspyrnufélags Akureyrar.