KA-strákarnir urðu að játa sig sigraða
KA tapaði fyrir Val á heimavelli í kvöld með þriggja marka mun, 32:29, þegar Olísdeild karla í handbolta hófst á ný eftir langt jóla- og heimsmeistaramótsfrí. Valsmenn eru eftir kvöldið í fjórða sæti deildarinnar en KA-strákarnir fóru úr áttunda sæti niður í það níunda. Eru nú tveimur stigum á eftir HK sem vann Gróttu í kvöld.
Það var 15. umferð deildarinnar sem fór fram í kvöld og sjö eru því eftir áður en átta efstu liðin hefja leik í úrslitakeppni.
Valsmenn náðu forystu snemma leiks, staðan var 6:2 eftir rúmar sjö mínútur en eftir að KA-menn tóku leikhlé drógu þeir mjög á þá rauðklæddu. Þegar tæpar 13 mín. voru liðnar var munurinn kominn niður í eitt mark, 7:6, en Valsmenn spýttu hressilega í lófana það sem eftir lifði hálfleiksins og að honum loknum munaði sex mörkum, 20:14.
Valsarar héldu áfram þar sem frá var horfið þegar blásið var til síðari hálfleiks og munurinn varð mestur átta mörk um hálfleikinn miðjan, 26:18. Þegar þar var komið sögu hresstust KA-menn á ný, Nicolai Kristensen gaf tóninn með góðri markvörslu og munurinn minnkaði jafnt og þétt en varð minnstur þrjú mörk.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson, markahæsti leikmaður KA í vetur, var ekki með í kvöld og liðið saknaði hans mjög. Vonandi verður Bjarni Ófeigur ekki lengi frá.
Arnór Ísak Haddsson og Daði Jónsson taka hraustlega á einum Valsaranum í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Mörk KA: Dagur Árni Heimisson 6, Einar Rafn Eiðsson 6 (1 víti), Arnór Ísak Haddsson 5, Patrekur Stefánsson 3, Logi Gautason 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Ott Varik 2, Einar Birgir Stefánsson 2.
Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 18 (1 víti) 40,9% – Óskar Þórarinsson 1 – 20%.
Mörk Vals: Bjarni í Selvindi 7, Allan Norðberg 7, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 7 (3 víti), Viktor Sigurðsson 4, Þorgils Jón Svölu Baldursson 2, Kristófer Máni Jónasson 2, Róbert Aron Hostert 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1, Agnar Smári Jónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 10 – 26,3%.