Fara í efni
Blak

KA og N1 koma einnig á laggirnar stúlknamóti

Lið KA stelpna sem tók þátt í N1 móti drengja í fyrrasumar og vann einn hluta mótsins. Mynd: KA.

Knattspyrnufélag Akureyrar og N1 hafa ákveðið að taka höndum saman og koma á laggirnar knattspyrnumóti fyrir 9 og 10 ára stúlkur, með svipuðu sniði og N1 mót drengja sem haldið hefur verið í tæpa fjóra áratugi og er eitt fjölmennasta mót landsins ár hvert. Fyrsta stúlknamótið verður í sumar.

„KA mun annast rekstur og skipulag mótsins, en N1 verða aðalbakhjarl þess. Stúlkurnar munu etja kappi á glæsilegu KA svæðinu helgina eftir Verslunarmannahelgina, eða 8.-10. ágúst næst komandi,“ segir í tilkynningu frá KA og N1.

Jafnrétti og jöfn tækifæri

Silja Mist Sigurkarlsdóttir, forstöðumaður þjónustu-, samskipta- og markaðssviðs N1, segir fyrirtækið ganga stolt til samstarfsins við KA um stofnun stúlknamótsins enda sé félagið þekkt fyrir að hlúa vel að yngri iðkendum hvað varðar aðbúnað og þjálfun. „Nú erum við að útvíkka stuðning okkar við knattspyrnuiðkun ungu kynslóðarinnar, þar sem áhersla er á jöfn tækifæri með stofnun sérstaks knattspyrnumóts fyrir stúlkur á aldrinum 9 til 10 ára með sambærilegu fyrirkomulagi og KA hefur haldið úti í áratugi á Akureyri og er gríðarlega vinsælt mót. Við erum mjög spennt að fá að fylgjast með uppbyggingu stúlknamótsins enda umgjörðin á staðnum til fyrirmyndar, bæði sú sem snýr að íþróttafólki sem og stuðningsfólki og íbúum í nágrenninu. Þetta aukna samstarf við KA markar ákveðin tímamót fyrir okkur hjá N1. Samningurinn um stofnun stúlknamóts er stórt skref fyrir N1 sem við hlökkum til að sjá vaxa og dafna, hann er jafnframt til marks um þá miklu áherslu sem báðir aðilar leggja á kynjajafnrétti og jöfn tækifæri,“ segir Silja Mist í tilkynningunni.

Í samræmi við jafnréttisstefnu KA

Hjörvar Maronsson, formaður knattspyrnudeildar KA, segir félagið hafa mikinn metnað fyrir því að veita stúlkum aukin tækifæri til æfinga og keppni í íþróttum og fagnar auknu samstarfi við N1. „Við munum hér eftir sem hingað til kappkosta að vinna að sem metnaðarfyllstu íþróttastarfi og gera áfram allt sem við getum til að skipa íþróttafólki okkar í fremstu röð á hverjum tíma. KA hefur jafnrétti kynja að leiðarljósi og hlökkum við mikið til að taka á móti fjörugum fótboltastelpum hingað norður og búa til skemmtilegt og kraftmikið mót sem mun skapa skemmtilegar minningar með stelpunum næstu ár. Aðstaðan er í dag til fyrirmyndar hérna á svæðinu hjá okkur en innan skamms verða framkvæmdum sem nú standa yfir að fullu lokið og verður þá svæðið eitt það glæsilegasta á landinu. Við erum afskaplega ánægð að okkar trausti samstarfsaðili N1 sé með okkur í þessari vegferð enda hefur okkur í þessu samstarfi tekist að auka hróður yngri flokka knattspyrnu á landsvísu undanfarna áratugi og áfram höldum við saman í að móta knattspyrnusöguna hér innanlands,“ segir Hjörvar.