Blak
KA konur bikarmeistarar þriðja árið í röð?
15.02.2024 kl. 14:30
KA-liðið eftir að það varð Íslandsmeistari í fyrravor. Áður hafði liðið fagnað sigri í Meistarakeppni BLÍ, deildarkeppninni sjálfri og bikarkeppninni. Ljósmynd: Þórir Tryggvason
Kvennalið KA og HK mætast í dag í undanúrslitum bikarkeppninnar í blaki, Kjörísbikarsins. Leikið er í Digranesi í Kópavogi, viðureignin hefst kl. 17.00 og verður sýnd beint á RÚV 2.
KA hefur orðið bikarmeistari í kvennaflokki síðustu tvö ár. KA-stelpurnar unnu reyndar allt sem hægt var að vinna bæði í fyrravetur og keppnistímabilið þar áður: fyrst Meistarakeppni Blaksambandsins og fengu þar með titilinn meistarar meistaranna, síðan urðu þær bikarmeistarar, deildarmeistarar og loks Íslandsmeistarar.
Karlalið KA mætir liði Hamars í undanúrslitum bikarkeppninnar á morgun. Leikurinn fer einnig fram í Digranesi, hefst kl. 17.00 og verður sýndur beint á RÚV 2.