Blak
Blak, handbolti og körfubolti í dag
02.12.2023 kl. 11:25
Það verður ýmislegt í boði í boltaíþróttunum á Akureyri í dag. Tveir blakleikir í KA-heimilinu og bæði handbolti og körfubolti hjá Þórsliðunum í Höllinni.
- KA-heimilið kl. 13:30 - Unbroken-deild karla: KA - Afturelding
Það verða karlarnir í blakliði KA sem hefja daginn þegar þeir taka á móti liði Aftureldingar í KA-heimilinu. KA-menn sitja í 4. sæti deildarinnar með 15 stig, en Afturelding er í 2. sæti með 24 stig. KA hefur leikið einum leik færra en liðin fyrir ofan. Leikurinn hefst kl. 13:30. - KA-heimilið kl. 15:45 - Unbroken-deild kvenna: KA - Afturelding
Konurnar í KA mæta svo til leiks kl. 15:45 og taka þá einnig á móti Mosfellingunum í Aftureldingu. Þar verður toppslagur því KA er í 2. sæti deildarinnar með 23 stig, einu stigi minna en Afturelding sem er á toppnum. Bæði lið hafa spilað níu leiki. - Íþróttahöllin kl. 14:00 - Grill 66 deild karla: Þór - Víkingur U
Karlalið Þórs í handboltanum fær ungmennalið Víkings í heimsókn í Íþróttahöllina og hefst leikur þeirra kl. 14. Fyrir leikinn í dag er Þór í 3. sæti Grill 66 deildarinnar með 11 stig úr átta leikjum. Fyrir ofan eru ungmennalið Fram með 12 stig úr sjö leikjum og Fjölnir með 13 stig úr níu leikjum eftir að Fjölnismenn unnu ungmennalið KA í gærkvöld. - Íþróttahöllin kl. 17:00 - Subway-deild kvenna: Þór - Fjölnir
Kvennalið Þórs í körfuboltanum hefur vakið verðskuldaða athygli á sínu fyrsta ári í efstu deild. Í dag fá þær lið Fjölnis í heimsókn í Höllina. Þórsarar eru í 6. sæti deildarinnar með fimm sigra í tíu leikjum, en Fjölnir í 8. sæti með þrjá sigra, þar á meðal sigur á Þórsurum fyrr í haust.