Birkir Bjarnason
Birkir Bjarnason verður fyrirliði
07.10.2021 kl. 20:38
Aron Einar Gunnarsson, Brynjar Ingi Bjarnason og Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason verður fyrirliði landsliðsins í knattspyrnu á morgun þegar það mætir Armeníu á Laugardalsvelli, í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer næsta sumar. Þetta kom fram á fundi fréttamanna með Arnari Þór Viðarssyni og Birki í dag.
„Ég hef verið fyrirliði áður en er augljóslega mjög stoltur og það er gaman að hafa bandið,“ hefur Vísir eftir Birki, sem tekur við fyrirliðabandinu af öðrum Akureyringi, Aroni Einari Gunnarssyni, sem hefur verið fyrirliði Íslands í tæpan áratug en var ekki valinn að þessu sinni eins og fram hefur komið.
Tveir norðanmenn eru í liðinu nú, auk Birkis verður Brynjar Ingi Bjarnason, leikmaður Lecce á Ítalíu, væntanlega í byrjunarliðinu á morgun.