Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Þór áfram í bikarnum með stórsigri á ÍR

Katrín Eva Óladóttir í sigurleiknum gegn Njarðvík fyrr í vikunni og María Sól Helgadóttir í upphitun fyrir leik. Myndirnar tók Helgi Heiðar Jóhannesson.

Kvennalið Þórs í körfubolta er komið áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar, VÍS-bikarsins, eftir sigur á 1. deildar liði ÍR í dag. Þórsstelpurnar skoruðu tvö stig fyrir hvert eitt sem gestgjafarnir í ÍR skoruðu, lokatölur 52-104. 

Ljóst var frá byrjun hvort liðið væri sterkara eins og við mátti búast miðað við stöðu liðanna, forysta Þórs orðin tíu stig um miðjan fyrsta leikhluta og jókst svo smátt og smátt upp frá því. Lykilleikmenn fengu því meiri hvíld en að jafnaði í erfiðari leikjum liðsins í Bónusdeildinni og þær sem minna hafa spilað fengu þá um leið tækifæri. Á meðal þess sem bar til tíðinda í leiknum var að María Sól Helgadóttir spilað sínar fyrstu mínútur í meistaraflokki, en hún hefur æft með meistaraflokki í vetur og verið varamaður í leikjum liðsins það sem af er tímabilinu. Katrín Eva Óladóttir spilaði sömuleiðis mikið í leiknum, en þessar tvær hafa að jafnaði beðið þolinmóðar á bekknum á meðan hinar hafa spilað nær allar mínútur liðsins í haust. Katrín Eva og María sól spiluðu báðar vel yfir 20 mínútur og létu að sér kveða. María Sól skoraði tíu stig í leiknum og Katrín Eva tók níu fráköst.

Hvíld lykilleikmanna kemur sér væntanlega vel því strax á þriðjudagskvöld taka Þórsstelpurnar á móti liði Vals í 10. umferð Bónusdeildarinnar. Stigaskorið dreifðist líka jafnt á leikmenn, en Amandine Toi stigahæst með 17 stig. Maddie Sutton tók 16 fráköst.  

  • Gangur leiksins: ÍR - Þór (13-24) (17-32) 30-56 (9-30) (13-18) 52-104
  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
  • Bikarkeppnin
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Amandine Toi 17 - 1 - 3
  • Eva Wium Elíasdóttir 16 - 10 - 5
  • Natalia Lalic 16 - 10 - 3
  • Esther Fokke 15 - 4 - 1
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 14 - 7 - 2
  • Maddie Sutton 13 - 16 - 5 - 32 framlagsstig
  • María Sól Helgadóttir 10 - 3 - 3
  • Katrín Eva Óladóttir 3 - 9 - 1

Liðin sem eru komin áfram, ásamt Þór, eru Ármann, Grindavík, Hamar/Þór, Njarðvík og Tindastóll. 

Topplið 1. deildarinnar, Ármann, vann Bónusdeildarlið Aþenu, Grindavík er komið áfram án þess að spila þar sem Snæfell dró lið sitt úr keppni, Tindastóll vann öruggan útisigur á Selfossi, Hamar/Þór vann 1. deildar lið KR og Njarðvík vann ríkjandi bikarmeistara Keflavíkur. Fjölnir og Stjarnan mætast í kvöld og svo Valur og Haukar á morgun.