Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Tap í fyrsta leik Þórs í átta liða úrslitum

Amandine Toi skýst fimlega í gegnum vörn Vals í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Valur náði frumkvæðinu af Þór með sigri í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik kvenna, Bónusdeildarinnar, í Íþróttahöllinni á Akureyri í gær. Enn hrjá meiðsli Þórsliðið og mikið álag á lykilleikmönnum í liðinu sem segir til sín á endanum í hröðum baráttuleik þar sem allt er lagt í sölurnar. Niðurstaðan varð á endanum sex stiga tap, 86-92.

Fyrri hálfleikurinn var gríðarlega jafn og skiptust liðin á að leiða. Þórsliðið hafði þó frumkvæðið og nýtti þriggja stiga körfurnar afar vel, yfir 50% nýtingu í fyrri hálfleiknum. Þór leiddi með fimm stigum eftir fyrri hálfleikinn, 49-44.

Þórsliðinu gekk afar illa að skora á upphafsmínútum seinni hálfleiksins, skoraði tvö stig á meðan gestirnir gerðu 14. Það þýddi þó ekki neina uppgjöf heldur héldu þær áfram að berjast og náðu að minnka muninn aftur niður í eitt stig, en lokakarfa þriðja leikhluta var Valskvenna og staðan 66-69 fyrir lokafjórðunginn.

Fjórði leikhlutinn gekk brösuglega til að byrja með hjá Þórsliðinu, eins og sá þriðji. Fljótlega höfðu gestirnir náð tíu stiga forstkoti, en aftur náði baráttuglatt Þórslið að koma sér aftur inn í leikinn með baráttu og góðum stuðningi úr stúkunni. Þegar 72 sekúndur voru eftir af leiknum höfðu Þórsstelpurnar minnkað muninn í eitt stig, 86-87, en náðu ekki að fylgja því eftir á lokamínútunni. Tvær næstu sóknir fóru út um þúfur og gestirnir bættu við stigum úr vítaskotum úr næstu sóknum. 


Hart var barist um hvern lausan bolta í leiknum. Hér eru það Maddie Sutton, fyrirliði Þórs, og Sara Líf Boama, leikmaður Vals, sem berjast, en Amandine Toi og einn dómara leiksins, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson, sem fylgjast með. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Niðurstaðan varð sex stiga tap og óhætt að segja að eins og í leiknum gegn Keflavík í lokaumferð A-hluta deildarinnar hafi Þórsliðið gert mun betur en hægt er að ætlast til þegar hópur sem var ekkert of fjölmennur fyrir er með þrjá öfluga leikmenn meidda á bekknum. Þegar líður á leiki segir það á endanum til sín í hröðum og hörðum leik. Þrjár úr byrjunarliði Þórs spiluðu 40 mínútur í leiknum og tvær spiluðu um 37 mínútur. 

Þórsliðið nýtti vítaskotin fullkomlega, 19 stig úr 19 skotum, og nýting þriggja stiga skotanna var líka góð, 44%. Eftir jafna frákastabaráttu í fyrri hálfleik voru gestirnir ofan á í þeim þætti í þeim seinni og tóku á endanum 11 fleiri fráköst en Þórsstelpurnar. 

Eva Wium Elíasdóttir skoraði 26 stig fyrir Þór og Amandine Toi 25 stig. Maddie Sutton tók 17 fráköst. Í Valsliðinu var það Alyssa Cerino sem skoraði mest, 30 stig.

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Eva Wium Elíasdóttir 26 - 4 - 0
  • Amandine Toi 25 - 4 - 4
  • Maddie Sutton 15 - 17 - 8 - 30 framlagsstig 
  • Hanna Gróa Halldórsdóttir 10 - 5 - 2 - 2 varin skot
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 10 - 1 - 2 - 2 stolnir boltar
  • Heiða Hlín Björnsdóttir og Katrín Eva Óladóttir spiluðu báðar tæpar þrjár mínútur. María Sól Helgadóttir var á meðal varamanna Þórs, en kom ekki við sögu í leiknum. Þá voru þær Esther Fokke, Hrefna Ottósdóttir og Natalia Lalica allar utan hópsins vegna meiðsla.

Valskonur stálu þar með heimavellinum, eins og það er stundum orðað, eru 1-0 yfir í einvíginu og eiga heimaleik næst. Liðin mætast í Valsheimilinu að Hlíðarenda laugardaginn 5. apríl kl. 19:15. Þriðji leikur verður á Akureyri miðvikudaginn 9. apríl kl. 18:30.