Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Eins stigs tap Þórsara í æsispennandi leik

Nýr leikmaður Þórs, Tim Dalger, tók af skarið þegar leið á leikinn og skoraði mikilvægar körfur. Hann gerir hér tvö af 33 stigum þrátt fyrir góð varnarilþrif Milorad Sedlarevic. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu fyrir Sindra frá Hornafirði í fyrsta heimaleik sínum í 1. deild karla í körfuknattleik í kvöld með einu stigi. Afleitur kafli í lok fyrri hálfleiks færði gestunum góða forystu, en Þórsarar náðu aftur í skottið á þeim, jöfnuðu og komust yfir í stutta stund undir lok leiks. Lokamínúturnar urðu æsispennandi og réðust úrslitin á nokkrum smáatriðum sem reyndust stór þegar upp var staðið.

Fimmtán Sindrastig í röð

Þórsarar voru heldur fljótari í gang og héldu forystunni allan fyrsta leikhlutann, en gestirnir frá Hornafirði jöfnuðu og komust yfir snemma í öðrum leikhluta og sigu svo fram úr undir lok fyrri hálfleiksins. Með rúmlega þriggja mínútna áhlaupi og 15 stigum Sindra í röð breyttist staðan úr 39-37 í 39-52 og 11 stiga forysta gestanna eftir fyrri hálfleikinn, 41-52. Þrátt fyrir þennan afleita kafla var skotnýting Þórsara betri og þeir tóku 20 fráköst á móti 12 í fyrri hálfleiknum. Þeir töpuðu hins vegar boltanum 11 sinnum, en Sindramenn aldrei. 

Þórsarar komust yfir en kláruðu ekki

Þórsliðið kom ákveðið til leiks í seinni hálfleiknum, minnkaði muninn niður í tvö stig og vann þriðja leikhlutann með sjö stigum. Sindri hélt forystunni lengst af, en Þórsarar náðu þrisvar að minnka muninn í tvö stig og náðu forystunni, 86-84, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Lokamínúturnar urðu því æsispennandi og réðust úrslitin raunar á nokkrum smáatriðum undir lokin og reyndist lukkan í liði með gestunum. Sindri náði fjögurra stiga forystu þegar tíu sekúndur voru eftir og aftur þegar fjórar sekúndur voru eftir þannig að þriggja stiga flautukarfa Baldurs Arnar Jóhannessonar dugði ekki og niðurstaðan eins stigs tap, 93-94.

Tveir leikmenn Þórs, Baldur Örn og Reynir, voru komnir með fjórar villur rétt eftir miðjan lokafjórðunginn og Reynir fékk sína fimmtu þegar 21 sekúnda var eftir.

Þröstur Leó Jóhannsson sem tók við þjálfun Þórsliðsins í sumar.

Bandarískur leikmaður Þórs, Tim Dalger, lék sinn fyrsta leik fyrir félagið og tók af skarið þegar leið á leikinn og skoraði mikilvægar körfur. Hann var stigahæstur Þórsara með 33 stig. Baldur Örn Jóhannesson tók 15 fráköst og var stigahæstur Þórsara framan af leik. Fyrirliðinn Gísli Þórarinn Hallsson var langstighæstur leikmanna Sindra með 31 stig.

  • Byrjunarlið Þórs: Andrius Globys, Baldur Örn Jóhannesson, Orri Már Svavarsson, Reynir Barðdal Róbertsson og Tim Dalger.
  • Gangur leiksins eftir leikhlutum: (22-18) (19-34) 41-52 (23-16) (29-26) 93-94

Tölfræði leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Tim Dalger 33 - 7 - 2
  • Reynir Barðdal Róbertsson 20 - 6 - 4 
  • Baldur Örn Jóhanneson 15 - 15 - 4
  • Andrius Globys 13 - 6 - 1
  • Orri Már Svavarsson 8 - 1 - 4 
  • Smári Jónsson 2 - 2 - 1
  • Páll Nóel Hjálmarsson 2 - 0 - 0
  • Kolbeinn Fannar Gíslason 0 - 1 - 1
  • Veigar Örn Svavarsson 0 - 4 - 0

Helstu tölfræðiþættir leiksins. Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins.