Fara í efni
Aron Einar Gunnarsson

Sárgrætilegur endir eftir frábæra baráttu

Frákastadrottningin Maddie Sutton að störfum gegn Keflvíkingum í kvöld! Til vinstri er Hanna Gróa Halldórsdóttir, Keflvíkingurinn hjá Þór sem var í byrjunarliðinu að þessu sinni, og hægra megin Heiða Hlín Björnsdóttir, aðstoðarþjálfari sem tók þátt í leiknum vegna þess hve margir Þórsarar eru meiddir. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Niðurstaðan í körfuboltaleik kvöldsins, þar sem Þór tók á móti Keflavík í lokaumferð A-hluta Bónusdeildar kvenna, var sárgrætileg og sérstaklega í ljósi þess að laskað lið Þórs hafði haft forystu lengst af leiknum, en Keflvíkingar stálu sigrinum á lokamínútunni. Segja má að stórar ákvarðanir sem leikmennirnir sjálfir hafa ekki vald yfir, eða öllu heldur skortur á ákvörðunum, hafi spillt gleði Þórsara á elleftu stundu. Lokatölur urðu 88-90 og Keflvíkingar hirtu 3. sætið, en Þór endar í 4. sæti og mætir Val í átta liða úrslitum deildarinnar. 

Kona í konu stað

Þrátt fyrir veruleg forföll í Þórsliðinu mættu stelpurnar ákveðnar til leiks, eða kannski einmitt vegna forfallanna því þegar lykilmenn eru frá keppni er það að sjálfsögðu tækifæri fyrir aðra leikmenn að láta ljós sitt skína. Keflvíkingurinn Hanna Gróa Halldórsdóttir kom inn í byrjunarliðið, skoraði sex stig, tók átta fráköst og átti fimm stoðsendingar, og aðstoðarþjálfarinn Heiða Hlín Björnsdóttir skellti sér í Þórsbúninginn og spilaði eins og hún hefði aldrei hætt.

Afdrifaríkt augnablik þegar 33 sekúndur voru eftir af leiknum. Staðan var 88-88, Maddie Sutton í dauðafæri og Keflvíkingur númer 15 leggur hönd augljóslega ofan á aðra hönd Þórsarans sem fyrir vikið getur ekki skotið á körfuna. Ekkert var dæmt, Keflvíkingar hófu sókn og gerðu síðustu körfu leiksins.

Gestirnir voru heldur ákafari í byrjun, höfðu forystuna lengi í fyrsta leikhlutanum. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 12 fyrstu stig Keflavíkurliðsins, en með baráttu náði Þórsliðið að jafna og komast yfir þegar leið á fyrsta leikhlutann, kláraði hann með sex stiga forskot. Munurinn var orðinn tíu stig um miðjan annan leikhluta og mest 11 stig áður en Keflvíkingum tókst aðeins að saxa á forskotið. Fimm stigum munaði eftir fyrri hálfleikinn. 

Amandine Toi leiddi Þórsliðið í stigaskori eins og oftast áður, var komin í 20 stig áður en fyrri hálfleik lauk. Að sama skapi var Maddie Sutton öflug í fráköstunum eins og alltaf, tók samtals 13 í fyrri hálfleiknum, fjögur í sókn og níu í vörn.

Eva Wium Elíasdóttir brunar í gegnum Keflavíkurvörnina. Hún gerði 23 stig í leiknum.

Þórsstelpurnar héldu áfram 6-10 stiga forskoti fram eftir þriðja leikhlutanum, héldu áfram að vinna frákastabaráttuna, vel studdar af fámennum en öflugum hópi stuðningsmanna. Kefvíkingar söxuðu síðan smátt og smátt á forskotið, minnkuðu muninn í fjögur stig fljótlega í fjórða leikhluta, en Þórsliðið virtist ætla að halda út.

Á meðan fráköstin og baráttan voru það sem héldu Þórsliðinu gangandi, 51 frákast á móti 33, voru þriggja stiga skotin hættulegasta vopn Keflvíkinga og þegar upp var staðið höfðu gestirnir skorað 39 stig utan línunnar, en Þórsarar 18. Þór með sex af 26 (23%), en Keflavík 13 af 38 (34%) og betri nýtingu. 

Amandine Toi gerði 31 stig fyrir Þór í kvöld.

Lokamínúturnar urðu æsispennandi, bæði lið að tapa boltanum og jafnt þegar 53 sekúndur lifðu leiks, 88-88. Tvær síðustu sóknir Þórsliðsins enduðu með tilraunum undir körfunni án þess að boltinn færi ofan í og án þess að tekin væri ákvörðun um brot. Umdeilt mjög að mati Þórsara, bæði í stúkunni og inni á vellinum. Keflvíkingar náðu tveggja stiga forskoti, 88-90, og Þórsarar hófu leik með níu sekúndur á klukkunni. Þeim tókst ekki að ná skoti á körfuna og á endanum unnu Keflvíkingar boltann þegar tæpar tvær sekúndur voru eftir.

Tveggja stiga tap varð niðurstaðan eftir hetjulega baráttu hjá löskuðu Þórsliði sem fyrirfram mátti ef til vill búast við að myndi lenda í hakkavélinni úr Reykjanesbæ. Ótrúlegt í raun hve nálægt sigri Þórsliðið var miðað við það sem stóð á pappírunum, en leikir vinnast auðvitað ekki á pappír heldur á því sem gerist inni á vellinum. Ákvarðanir sem ekki eru á forræði liðsins spilltu gleðinni, en því verður ekki breytt. Tveggja stiga tap varð niðurstaðan.

Amandine Toi skoraði mest Þórsara, 31 stig, og Maddie Sutton tók 24 fráköst. Hjá Keflvíkingum var það Sara Rún Hinriksdóttir sem var mest áberandi, skoraði 28 stig, þar af 12 fyrstu stig liðsins, og tók níu fráköst.

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Amandine Toi 31 - 4 - 4
  • Eva Wium Elíasdóttir 23 - 4 - 3
  • Maddie Sutton 19 - 24 - 6 - 37 framlagsstig
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 8 - 4 - 0
  • Hanna Gróa Halldórsdóttir 6 - 8 - 5
  • Heiða Hlín Björnsdóttir 1 - 2 - 0
  • Katrín Eva Óladóttir 0 - 2 - 0

Þór endar í 4. sæti A-hluta Bónusdeildarinnar, með 13 sigra í 22 leikjum eins og Keflavík, en Keflvíkingar unnu tvær viðureignir þessara liða í deildinni í vetur á móti einum Þórssigri og hirða því 3. sætið. Þessi niðurstaða þýðir að Þór mætir Val í átta liða úrslitunum, en Valur endaði í 5. og neðsta sæti A-hlutans. 

Úrslitakeppni Bónusdeildarinnar hefst mánudaginn 31. mars, en líklegt að Þór taki á móti Val á þriðjudagskvöld þar sem karlalið Þórs tekur á móti Fjölni á mánudagskvöld í öðrum leik liðanna í umspili 1. deildar karla.