Fara í efni
Aron Einar Gunnarsson

Aron Einar kom, sá og gerði jafntefli

Aron Einar Gunnarsson kemur inn á í stað Hermanns Helga Rúnarssonar (4) á 67. mínútu. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Aron Einar Gunnarsson, kunnasti knattspyrnumaðurinn í sögu Þórs, snéri heim á ný í dag þegar hann lék með félaginu í fyrsta skipti í 18 ár. Mikil tilhlökkun hefur ríkt í herbúðum félagsins undanfarið og fjölmennt var í stúkunni þegar Þór mætti Njarðvík í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins. Aðeins náðist þó í eitt stig því liðin gerðu jafntefli, 2:2, en nærvera Arons Einars skipti miklu máli. Hann kom inn um miðjan seinni hálfleik þegar staðan var 2:0 fyrir gestina. 

Þórsarar byrjuðu vel og ótrúlegt var að þeir skyldu ekki skora á upphafsmínútunum.

Rafael Victor fékk dauðafæri strax á annarri mínútu og komst aftur í úrvals færi á þeirri fjórðu, en Aron markvörður Njarðvíkinga varði frá honum í bæði skiptin.

Þór fékk enn eitt góða færið fljótlega en svo jafnaðist leikurinn og það voru Njarðvíkingar sem næst komust því að skora það sem eftir lifði hálfleiksins, þegar boltinn small í stöng Þórsmarksins.

Góð stemningin var á Þórsvellinum í dag enda mikill fjöldi fólks mættur til þess að verða vitni að fyrsta leik Arons Einars. Þögn sló þó á mannskapinn þegar gestirnir skoruðu strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks og þeir skoruðu aftur sex mínútum síðar.

Afleit byrjun á seinni hálfleik og Njarðvíkingar voru nálægt því að gera þriðja markið.

Svo kom að stóru stundinni: Aroni Einari var skipt inn á þegar um 25 mínútur voru eftir og leysti Hermann Helga Rúnarsson af hólmi. Mikið var klappað og hátt hrópað af fögnuði þegar leiðtoginn mikli klæddist Þórstreyjunni á ný í keppnisleik og nærvera hans var ekki lengi að hafa áhrif á samherjana.

Þór fékk vítaspyrnu fljótlega sem Birkir Heimisson skoraði úr af miklu öryggi og það var svo Vilhelm Ottó Biering Ottósson sem gerði jöfnunarmarkið á 79. mínútu – eftir frábæra sendingu Arons Einars, nema hvað! Laglegt spil endaði með því að Aron fékk boltann utan við hægra vítateigshornið og sendi boltann með fyrstu snertingu inn á markteig þar sem Vilhelm Ottó skallaði í netið.

Gestirnir voru nálægt því að komast yfir á ný þegar 10 mínútur voru eftir en Aron Birki varði vel og Þórsarar hefðu svo getað nælt i öll stigin þrjú þegar komið var í uppbótartíma en dauðafæri fór forgörðum.

Frammistaða Þórsliðsins í sumar hefur verið misjöfn; liðið á það til að leika mjög vel en stundum afar illa. Í dag sást að mönnum óx mjög ásmegin þegar Aron Einar kom inn á, og skildi reyndar engan undra, slíkur kraftur fylgir honum og nærveran er sterk. Jafnvel þótt Aron hafi ekki leikið í marga mánuði vegna meiðsla skiptir nærvera hans gríðarlegau máli.

Spennandi verður að fylgjast með Þórsliðinu með hann innanborðs. Liðið hefur 18 stig að 16 leikjum loknum og er nú átta stigum frá liðinu í fimmta sæti, því síðasta sem tryggir þátttöku í umspili um sæti í Bestu deildinni næsta sumar. Vert er að benda einnig á að Þór er aðeins fimm stigum fyrir ofan fallsæti þannig að horfa þarf vandlega í báðar áttir.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni