Fara í efni
Arctic Therapeutics - Hákon Hákonarson

Sveiflusigur Þórs á liði Hamars/Þórs

Hart barist um boltann í leik kvöldsins. Eva Wium Elíasdóttir heldur um boltann. Abbie Clair Beeman í liði gestanna reynir að ná honum, en Jón Þór Eyþórsson dómari dæmdi hana brotlega. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór vann Hamar/Þór í sveiflukenndum leik í 11. umferð Bónusdeildar kvenna í körfuknattleik í kvöld og situr áfram í 4. sæti deildarinnar, ósigrað á heimavelli það sem af er tímabili. 

Fyrsti leikhlutinn var afar slakur hjá Þórsliðinu, skotnýtingin í lágmarki og gestirnir gengu á lagið. Munurinn var orðinn 13 stig, 12-25, þegar stutt var eftir, en endaði í 11 stigum og útlitið ekki bjart. Það var síðan allt annað Þórslið sem mætti til leiks í öðrum leikhluta, vörnin small, skotin fóru að detta og Þór skoraði 13 fyrstu stig leikhlutans á meðan ekkert gekk upp hjá gestunum. Natalia Lalic kom inn af varamannabekknum og skoraði 15 stig í fyrri hálfleiknum.

Natalia Lalic reynir að koma í veg fyrir að Abby Beeman skori. Natalia kom sterk inn af bekknum í kvöld og skoraði 15 stig í fyrri hálfleiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Sýning í 2. leikhluta

Annar leikhlutinn var hreinlega sýning af hálfu Þórsliðsins sem skoraði 29 stig og fékk aðeins á sig átta, sveiflan fór úr mínus 11 í plús tíu. 

Sveiflurnar héldu áfram að koma í seinni hálfleiknum, en voru þó mun minni. Þór náði mest 18 stiga forskoti í 3. leikhluta, Hamar/Þór minnkaði muninn niður í 11 stig, en aftur tóku Þórsstelpurnar kipp og munurinn orðinn 20 stig þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum, 80-60. Gestirnir náðu svo að saxa á það forskot á lokamínútunum, en það var of lítið og of seint til að þær ættu möguleika á að jafna. Þórsliðið vann á endanum níu stiga sigur, verðskuldaðan þrátt fyrir afar slaka byrjun á leiknum. 

Fullt hús á heimavelli

Með sigrinum á Hamri/Þór í kvöld kláruðu Þórsstelpurnar árið með fullu húsi á heimavelli á þessu tímabili, hafa unnið alla sex heimaleiki sína, og hafa nú að auki unnið öll liðin sem þær hafa mætt á einu og hálfu tímabili í efstu deild að minnsta kosti einu sinni. Hamar/Þór lék í 1. deildinni í fyrra og vann fyrri viðureign liðanna í haust. Í fyrra tókst Þórsliðinu ekki að vinna Grindavík og Njarðvík í deildinni, en bæði þessi lið hafa legið í valnum í Höllinni í haust.

Maddie Sutton skiptir um gír og brunar til baka í vörnina eftir að boltinn tapaðist. Abby Beeman hirðir boltann og Amandine Toi fylgir í humátt á eftir. Mynd: Skapti Hallgrímsson. 

Þór og Tindastóll fylgjast áfram að í 3. og 4. sæti Bónusdeildarinnar, eru bæði komin með sjö sigra í 11 leikjum og hafa nú náð í skottið á Keflvíkingum sem sitja í 3. sætinu. Þar fyrir ofan eru Njarðvík með átta sigra og Haukar með níu. Það vekur svo einnig athygli að Þórsliðið hefur núna fyrir áramót unnið jafn marga leiki og liðið vann í deildarkeppninni í fyrra. Eftir að Breiðablik dró sig úr keppni í fyrra voru aðeins skráðir 16 leikir á hvert lið og vann Þór sjö þeirra, en tapaði níu. Nú eru sigrarnir sjö og töpin aðeins fjögur.

„Bara“ tvöföld tvenna hjá Maddie

Natalia Lalic kom inn af bekknum og skoraði grimmt á köflum, en þegar leið á leikinn var það að venju Amandine Toi sem endaði stigahæst í Þórsliðinu, skoraði 22 stig. Maddie Sutton var öflug að venju, en nú orðið heyrir það til tíðinda ef hún nær ekki þrefaldri tvennu. Það hafði hún gert þrjá leiki í röð, en náði ekki tvennunni í stoðsendingum í kvöld. Segja má að hún sé búin að ofdekra stuðningsmenn og kemur þannig eiginlega á óvart þegar hún er „aðeins“ með tvöfalda tvennu.

Hluti af barnakórnum úr minni boltanum í körfunni hjá Þór sem lét vel í sér heyra undir stjórn Bjarka Ármanns Oddssonar. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Vert er að geta þess að öflugur barnakór körfuboltakrakka í minni boltanum hjá Þór studdi dyggilega við bakið á stelpunum undir dyggri stjórn Bjarka Ármanns Oddssonar. Áhorfendur voru um 190 og voru vel með á nótunum enda fengu þeir alls konar fyrir peninginn.

  • Gangur leiksins: Þór - Hamar/Þór (18-29) (29-8) 47-37 (18-16) (17-20) 82-73
  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Amandine Toi 22 - 3 - 3
  • Maddie Sutton 19 - 15 - 4 - 27 framlagsstig
  • Eva Wium Elíasdóttir 18 - 11 - 5
  • Natalia Lalic 17 - 2 - 2
  • Ester Fokke 5 - 5 - 2
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 1 - 3 - 0 
  • Hrefna Ottósdóttir 0 - 1 - 0