Fara í efni
Arctic Therapeutics - Hákon Hákonarson

Blöndulína: Frestur til ábendinga lengdur

Frestur til að koma ábendingum á framfæri vegna nýrrar tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 vegna Blöndulínu 3 hefur verið framlengdur um tvær vikur – til 23. janúar.

Miklar umræður sköpuðust á Facebook síðu Giljahverfis eftir að hjónin Ágúst Torfi Hauksson og Eva Hlín Dereksdóttir vöktu athygli á auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi og þeir sem tjá sig eru þar afar ósáttir við að gert sé ráð fyrir að háspennulínan verði loftlína en ekki lögð í jörðu eins og krafa bæjarins hefur verið.

Halla Björk Reynisdóttir, formaður skipulagsráðs og forseti bæjarstjórnar Akureyrar, sagði í umræðunum að sjálfsagt mál sé að lengja frest um tvær vikur til þess að koma með ábendingar og tilkynnt var um breytinguna á vef bæjarins strax í morgun.

Ágúst Torfi hafði skrifað, fyrir hönd þeirra hjóna:

„Ekki er að sjá að neitt tillit hafi verið tekið til þeirra athugasemda sem komu frá okkur íbúum Giljahverfis, né öðrum þeim sem athugasemdir sendu. Árangur kjörinna fulltrúa í samningum við Landsnet um lagningu þessarar línu virðist enginn vera og orðalag um möguleika þess að línan verði lögð í jörðu síðar loðið og haldlítið.

Það er mat okkar hjóna sem hér skrifa að nauðsynlegt sé að afgreiðslu þessa máls verði frestað til að gefa íbúum ráðrúm til að koma með athugasemdir við skipulagstillöguna. Það hlýtur að vera styrkur fyrir kjörna fulltrúa, sem við viljum trúa að vinni fyrir hag bæjarbúa en gangi ekki erinda annarra afla, að gefa íbúum tækifæri til að segja sína skoðun og stuðla að lýðræðislegu ferli málsins.

Það að umsagnartíminn sé yfir hátíðir gefur afar skamman tíma til fara yfir gögn málsins.

Við munum rita nefndinni bréf og fara fram á frest auk þess sem mikilvægt er að frekari gögn um málið verði gerð aðgengileg, t.a.m. upplýsingar frá HMS [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] um áhrif á fasteignaverð en fulltrúar HMS hafa fundað með bænum án þess að upplýsingar sem þar komu fram hafi sjáanlega verið gerðar opinberar.“

Halla Björk segir í athugasemd (Akureyri.net feitletrar):

„Varðandi ferlið að þá er núna verið að kynna DRÖG að breytingu á aðalskipulagi er varðar staðsetningu háspennulínu, hvort sem hún er í loft eða í jörðu. Ákvæði mögulegs samnings, þ.e. hvenær línan á að fara í jörð, koma ekki fram í skipulaginu enda eru samningsatriði almennt aldrei hluti af skipulagi.

Viðræður standa enn yfir, þar sem öll bæjarstjórn tekur þátt. Við erum öll meðvituð um þá hagsmuni sem liggja undir og munum halda þeim á lofti. Næsta skref í skipulagsferlinu væri síðan að auglýsa með formlegum 6 vikna athugasemdafresti. En það tæki við því sem nú liggur fyrir.“

Vert er að geta þess að í umræðunum komu fram efasemdir um að nýja leiðin sem auglýst er henti þegar og ef línan verði lögð í jörðu síðar meir, því línuleiðarhugmynd Landsnets sé yfir stærsta klapparholtið á öllu svæðinu.