Fara í efni
Amtsbókasafnið

Viltu pakka inn á umhverfisvænan hátt?

Innpökkunarstöðin á Amtsbókasafninu á Akureyri.

Nú gefst fólki kostur á að pakka inn jólagjöfum á umhverfisvænan máta á Amtsbókasafninu í desember. Þangað geta allir komið og nýtt sér innpökkunarstöð sem komið hefur verið upp í sýningaraðstöðu safnsins.

Fólki stendur til boða jólapappír, bæði hefðbundinn og óvenjulegur, könglar, greni, borðar, slaufur og fleira sem hægt er að nýta í innpökkunina.

„Við nýtum blaðsíður úr afskrifuðum bókum og tímaritum sem jólapappír og erum einnig með notaðan jólapappír sem má nýta aftur, hér eru borðar og skraut sem hefur orðið afgangs í smiðjum eða föndri hjá okkur og svo hefur starfsfólk komið með pappír og borða að heiman sem ekki er not fyrir þar,“ segir Svala Hrönn Sveinsdóttir, verkefnastjóri á Amtsbókasafninu við Akureyri.net um þennan bráðsnjalla möguleika.

„Greinarnar og könglarnir eru úr Kjarnaskógi og svo hafa gestir og gangandi einnig komið með skraut handa okkur sem það ætlar ekki að nýta sjálft. Þannig að það eina sem við kaupum á innpökkunarstöðina, er límbandið,“  segir Svala Hrönn.

Innpökkunarstöðin er opin alla virka daga frá klukkan 8.15-19.00 og á laugardögum frá klukkan 11.00-16.00. Fólk sem lumar á jólapappír, pakkaskrauti og merkimiðum heima hjá sér en ætlar ekki að nota er hvatt til að koma með það á innpökkunarstöðina.