Amtsbókasafnið
Styðja baráttu kennara en harma áhrif verkfalls
10.10.2024 kl. 16:00
Foreldrafélag Lundarskóla lýsir yfir stuðningi við baráttu kennara fyrir kjörum og vinnuaðstæðum en harmar að sama skapi þau áhrif sem verkfall hefði á nemendur. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið sendi Akureyri.net eftir birtingu fréttar um að kennarar skólans hefðu samþykkt verkfallsaðgerðir eins og starfsmenn annarra skóla þar sem greidd voru atkvæði um verkfall.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
Foreldrafélag Lundarskóla lýsir yfir stuðningi við baráttu kennara okkar fyrir bættum kjörum og vinnuaðstæðum. Við skiljum og virðum mikilvægi þess að kennarar fái sanngjörn laun og viðunandi starfsskilyrði til að geta sinnt starfi sínu af heilindum og fagmennsku.
Á sama tíma hörmum við þau áhrif sem verkfallið mun hafa á nemendur okkar. Við erum meðvituð um að verkfallið, sem hefst 29. október og stendur til 22. nóvember ef samningar nást ekki, mun valda röskun á skólastarfi og hafa áhrif á nám og daglegt líf nemenda.
Við hvetjum alla aðila til að leita lausna og ná samkomulagi sem fyrst, þannig að hægt verði að tryggja stöðugleika í skólastarfi og velferð nemenda okkar. Fjárfesting í menntun barnanna okkar er án efa ein sú mikilvægasta fyrir einstaklinga og samfélagið okkar í heild.
Með von um farsæla lausn,
Foreldrafélag Lundarskóla
Foreldrafélag Lundarskóla
Frétt Akureyri.net fyrr í dag: Kennarar Lundarskóla samþykktu verkfall