Fara í efni
Amtsbókasafnið

Séra Björn í Laufási og byggingararfurinn

SÖFNIN OKKAR – XLIV

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Laufás minn er listabær
lukkumaður sá honum nær
manni allt á móti hlær
mest á vorin þegar grær.

Þessi vísa er eignuð ónefndum presti væntanlega einhverjum þeim sem sat Laufás við utanverðan Eyjafjörð.

Það er lenska að tala niður íslenskan byggingararf með því að tala um hjalla og kofa. Einkum þegar rætt er um torfhúsin. Slík minnimáttarkennd er þó óþörf með öllu og vonandi á undanhaldi. Það er t.d. afar skemmtilegt að sjá hvernig vísað er í torfbyggingararfinn í baðlóninu Sky lagoon sem hefði að ósekju einnig mátt horfa til íslenskrar málhefðar.

Laufás við Eyjafjörð. Vatnslitamynd W.B. Fortescue frá 1913.

Laufásbærinn í Eyjafirði er með glæsilegri byggingum frá fornri tíð. Þar var heimili prests og fjölskyldu hans ásamt vinnufólki a.m.k. frá 1047 til ársins 1936. Líklegt er þó að Laufásjörðin hafi verið numin við landnám, þannig kemur Laufás fyrir íslenskum fornritum og þar fannst t.d. í jörðu bútur af fornu sverði.

Laufás var góður staður að búa eins og segir í kvæðinu hér á undan því landnytjar og leiga voru miklar í Laufási, ekki síst æðarvarpið. Það var því hægt að efnast vel í Laufási. Margir mætir prestar hafa setið staðinn og sett mark sitt á hann en fáir jafn mikið og sr. Björn Halldórsson sem þar bjó frá 1853-1882 ásamt konu sinni Sigríði Einarsdóttur. Þau eignuðust fjögur börn þar á meðal Þórhall sem síðar varð biskup Íslands og alþingismaður. Saga Þórhalls hefði orðið önnur og um leið rithöfundarins Nonna ef móðir Þórhalls hefði hugnast að senda hann í þá för sem Nonni fór til náms í Frakklandi í kaþólskan skóla. En það er efni í annan pistil.

Séra Björn Halldórsson og Sigríður Einarsdóttir. Eftirmæli hennar voru ekki síður góð. Hún var bæði talin góð við fátæklinga og vinnuhjú og afbragðs búkona. Mynd: Þjóðminjasafn Íslands

Sr. Birni var margt til lista lagt og þótti góður prestur. Hann smíðaði úr ólíkum efnum. Hann var góður eldsmiður og gott skáld. Þannig orti hann á skrifstofunni í Laufási sálminn Sjá himins opnast hlið sem sunginn er um jól í kirkjum. Það var ekki síst í byggingarlistinni sem Björn lét til sín taka. Í bók Harðar Ágústssonar, Laufás við Eyjafjörð, staðurinn, segir:

„Með komu séra Björns Halldórssonar í Laufás verður bylting í húsagerð þar. Hann tekur torfkirkjuna niður árið 1865 og reisir í hennar stað glæsilega timburkirkju sem enn stendur. Baðstofuna endurbyggir hann 1867 og framhúsin 1876 og gerir Laufás að burstabæ. Miðbæjarhúsin endurbætir hann og stækkar sem og útihús flest. Bærinn eins og hann er nú og kirkjan eru verk Björns Halldórssonar og bera dugnaði hans, höfðingsbrag og smekkvísi fagurt vitni.“

Þegar nýjum byggingaráfanga var fagnað hefur án efa verið leitað í vindlaskápinn og dreift á mannskapinn. Vindlaskápurinn er einmitt í betri stofunni í Laufási, einu af framhúsunum sem Björn lét reisa.

Vindlaskápur úr eik, með hurðarramma prýddum látúnsflúri. Innan rammans er gagnskorið laufamunstur úr látúni. Að ofan er bogamynduð brík með rós. Myndir: HÞE

Laufásbærinn er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands en Minjasafnið á Akureyri hefur umsjón með bænum og starfsemi hans. Laufás er vinsæll viðkomustaður ferðamanna en langstærstur hluti þeirra eru erlendir sem dást að byggingunni og íslensku byggingarhefðinni.

Þegar sr. Þorvarður Þormarr og fjölskylda fluttu úr bænum 1936 í steinhúsið norðan við bæinn kom til greina að taka niður Laufásbæinn og flytja, stein fyrir stein, spýtu fyrir spýtu til Akureyrar og endurhlaða þar. Það hefði verið stórslys í íslenskri byggingarsögu.

Mynd: Hörður Geirsson