Fara í efni
Amtsbókasafnið

„Mennirnir okkar eiga það skilið ... “

SÖFNIN OKKAR – XI
Frá Amtsbókasafninu á Akureyri
_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Bóndadagur nefnist fyrsti dagur Þorra. Takmarkaðar heimildir eru til um þennan dag og siði honum tengdum og því erfitt að ráða í aldur hans og hverju hann tengdist. Af þeim fáu heimildum sem til eru þá er þó ljóst af frásögnum af siðum honum tengdum að hér hafi verið um alþýðutyllidag en ekki hátíðisdag og því alls óvíst hvort hann hafi verið mjög útbreiddur eða hvaða tilstand hafi tíðkast þar sem hann var haldinn.

Þorri hefst alltaf á föstudegi í 13. viku vetrar, að þessu sinni 26. janúar – á morgun.

Ein elsta heimild sem við höfum kemur fram í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal (f. 1665) til Árna Magnússonar frá árinu 1728 að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði Þorrann velkomin og inn í bæ eins og um tignan gest væri að ræða.

Eins segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að bóndi skyldi bjóða þorra velkomin með eftirfarandi hætti:

„… með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir aða fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er „að fagna þorra“.
Sumstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður „bóndadagur“ á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn „þorrablót“.“

Yndislegi maðurinn minn

Aftan á kápu gjafabókarinnar Yndislegi maðurinn minn (sem hægt er að sjá í skylduskilum hjá okkur) segir meðal annars: „Mennirnir okkar eiga það skilið að við sýnum þeim þakklæti okkar í verki og að við segjum þeim hve mikils við metum allt sem þeir leggja á sig, öll viðvikin og endalausa hlýjuna sem þeir eiga til. Í þessari litlu bók er að finna ýmislegt fallegt, skemmtilegt og undirfurðulegt sem við vildum gjarnan sagt hafa við þessar elskur en höfum ekki alltaf komið okkur að.“

Í seinni tíð hafa hefðirnar breyst og ein af sterkari hefðum er að konur gefi bónda sínum blóm á þessum degi eins og menn gefa konu sinni blóm á Konudaginn fyrsta dag Góu.

Í dag keppast fyrirtæki við að auglýsa vöru og þjónustu í tilefni af bóndadeginum. Má þar nefna matarupplifun og spa, út að borða með bóndann, óvissuferð, vínskóli að ógleymdri bóndadagsköku.

Ein hugmyndin væri að eiga rómantískan kvöldverð við kertaljós í stofunni heima og bóndinn fengi lítinn pakka sem innihéldi bókasafnskort frá Amtsbókasafninu.
_ _ _ 

HVAÐ ERU SKYLDUSKIL?

  • Amtsbókasafnið er annað tveggja skylduskilasafna hér á landi. Safnið hefur þá skyldu að varðveita eitt eintak af skilaskyldu efni sem best, tryggja öryggi þess og viðhald. Þetta kemur fram á vef safnsins. Þar segir einnig:
  • Efni sem flokkast undir skylduskil er ekki lánað út en eingöngu lánað á lestrarsal. Afgreiðsla þess fer fram í afgreiðslunni á 1. hæð.
  • Skylduskil eru verk sem gefin eru út eða birt hér á landi. Þar með teljast verk sem framleidd eru erlendis ef þau eru sérstaklega ætluð til dreifingar á Íslandi.
  • Undir skylduskil flokkast meðal annars bækur, barnabækur, kennslubækur, hljóðbækur, tímarit, árbækur, ársskýrslur, fréttabréf, sjónvarpsdagskrár, glanstímarit, dagblöð, héraðsblöð, kosningablöð, skólablöð, myndablöð og hverfablöð.
  • Skýrslur, landakort, veggspjöld og smáprent, t.d. bæklingar, auglýsingar, verðlistar, leikskrár, sýningarskrár, tónleikaskrár, póstkort, jólakort og spil.
  • Safninu berst á ári hverju mikið magn af skylduskilum. Á bilinu 70-100 kassar á ári. Þessi skylduskil dreifast um geymslur safnsins og fer töluverður hluti þeirra í geymslu í kjallara safnsins.