Margra mánaða barátta upp á líf og dauða
Ásgeir Jóhannesson, sem fæddur er 2. nóvember 1931 og er því á 92. aldursári, veiktist illa af Akureyrarveikinni sem geisaði veturinn 1948 til 1949, en hann var þá í námi við Menntaskólann á Akureyri. Ásgeir var einn framsögumanna á málþingi um Akureyrarveikina sem fram fór á Amtsbókasafninu um síðustu helgi og er erindi hans birt í heild á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Gangaslagsmál í stað leikfimi
„Haustið leið við glaum og gleði. En í byrjun nóvember hvisuðust út þær slæmu fréttir að lömunarveiki hefði borist til Akureyrar og fólk lægi á nokkrum stöðum í bænum, mismunandi veikt en þó ein ung stúlka alvarlega lömuð. Og á næstu dögum veiktust nokkrir nemendur í skólanum og heimavistinni. Var þá gripið til fyrstu varúðarráðstafana innan Menntaskólans, en það var að leggja af kennslu í leikfimi,“ segir Ásgeir. „En nemendur kunnu illa hreyfingarleysinu og efndu til all-illvígra gangaslagsmála til að halda sér í æfingu. Ég var engin undantekning þar og eftir einn slaginn 13. nóvember fannst mér ég vera óvenjulega máttlaus og ekki alveg eins og ég átti að mér, lagðist því fyrir en druslaðist með Valgarði í bíó um kvöldið. Þetta voru fyrstu merki þess að ég væri að veikjast og daginn eftir var ég með smávegis hita. Hélt mig því við rúmið ásamt Bjarna herbergisfélaga mínum sem var slappur en við gátum vel komist sjálfir á klósett en það var niðri í kjallara og niður tvo allbratta stiga að fara. Tvær handlaugar voru hins vegar frammi á gangi á þriðju hæð skólans og þar hægt að þvo sér, eins var í kjallaranum við klósettin engir vaskar þar inni og fara varð fram á gang til að þvo sér. Þarna voru enn síður sprittbrúsar eða nokkuð sérstakt til sóttvarna.“
Nemendur og almenningur studdu hvorir aðra
Um miðjan nóvember var fjöldi nemenda lagstur í heimavistinni og af um 60 vistmönnum talið að allt að helmingur hefði tekið veikina. Upp úr miðjum mánuði hringdi skólameistari Þórarinn Björnsson á sal og tilkynnti að vegna hinnar alvarlegu stöðu sem upp væri komin í skólanum yrði kennsla felld niður næstu 2 vikur eða til 3. desember. „Engar aðrar sóttvarnir voru teknar upp í skólanum og sumar stelpurnar af heimavistinni notuðu fríið til að vinna við afgreiðslu í verslunum á Akureyri en jólaösin var einmitt að hefjast þar um þetta leyti. Aðrar fóru til aðstoðar á heimilum úti í bæ þar sem mikil veikindi geisuðu. Þannig reyndu nemendur og almenningur á Akureyri að styðja hvorir aðra á þessum óvenjulegu tímum. En samkomubann var líka sett á í Akureyrarbæ um svipað leyti. Mjög alvarlegt ástand var á sumum heimilum í bænum, t.d. á heimili Snorra Sigfússonar fyrrum skólastjóra, en þrjú af heimilinu voru flutt flugleiðis til meðferðar á heilsuhæli í Danmörku. Er fræg sagan er Jóhannes Snorrason flugstjóri flutti föður sinn fárveikan áleiðis til Kaupmannahafnar með millilendingu í Prestwick.“
Vonleysi og áhyggjur
Um jólin versnaði Ásgeiri stöðugt, „kjarkurinn og áræðið hvarf, vonleysi og áhyggjur tóku við. Varð nú ekki annað til ráða en að senda mig heim til Húsavíkur til foreldra minna með næstu skipsferð er til félli. Fyrsti möguleiki til ferðar var með strandferðaskipinu Esju sem von var á til Akureyrar 3. janúar. Ekki var vitað á þessum tíma að fólk hefði látist úr veikinni og við aðeins tveir úr þremur efstu bekkjum MA sem urðu svo veikir að hverfa þurftu frá námi í skólanum,“ segir hann.
Þegar að því kom var siglt með Esjunni „út í svartnættið og hríðina og komum til Húsavíkur næsta morgun, þar sem fjölskylda mín og vinir fögnuðu mér á bryggjunni, en fylgdarmenn mínir sneru aftur til Akureyrar með skipinu,“ segir Ásgeir. „Það var svo mikill snjór á Húsavík að bera varð mig í sjúkrarúmi af bryggjunni og heim í foreldrahús. Þar hófst margra mánaða barátta við Akureyrarveikina upp á líf og dauða sem endaði með því að ég gat klætt mig sjálfur um haustið eftir að hafa fengið sjúkraþjálfun í Reykjavík. Síðan náði ég heilsu að miklu leyti á næstu áratugum en það er önnur saga. Námi mínu við Menntaskólann á Akureyri var lokið, en ég öðlaðist farsæla ævi og ánægjulegt líf, þó leiðir skildu við mín góðu skólasystkini. Og hér sit ég nú í hópi elstu karla og kvenna er lifðu þessa tíma. En vikurnar sjö sem ég lá þarna í heimavist menntaskólans líða mér aldrei úr minni.“
Smellið hér til að lesa erindi Ásgeirs á vef Akureyrarbæjar.