Fara í efni
Amtsbókasafnið

Fræsafn opnað á Amtsbókasafninu

Fræsafn verður opnað á Amtsbókasafninu á Akureyri á morgun, fimmtudaginn 2. mars.

Á fræsafninu getur hver sem er fengið fræ sér að kostaðarlausu en fólk getur einnig gefið safninu fræ sem það sér ekki fram á að nota. Jóhann Thorarensen garðyrkjumaður verður á staðnum frá kl. 17:00 á morgun, til þess að leiðbeina um sáningu fræja.

Í fræsafninu er að finna úrval af fræjum sem safnið hefur fengið gefins, kryddjurtir, matjurtir, sumarblóm og fjölæringar. Fræsafnið verður aðgengilegt á opnunartíma bókasafnsins og fólki er frjálst að fá úr safninu án aðstoðar.

Skv. upplýsingum frá Amtsbókasafninu er fræsafnið stofnað til þess að byggja upp samfélag ræktenda og hvetja fólk til þess að rækta eigin matvæli og aðrar plöntur. Markmiðið sé einnig að styðja við deilihagkerfið, minnka sóun og gefa fólki tækifæri til þess að prófa sig áfram í ræktun sér að kostnaðarlausu.

  • Starfsfólk Amtsbókasafnsins hefur bryddað upp á alls kyns nýjungum síðustu misseri; ekki er einungis hægt að fá lánaðar bækur hjá þessari góðu, framsæknu stofnun. Ein fyrsta fréttin sem birtist á Akureyri.net eftir að miðillinn var endurvakinn í nóvember 2020 var einmitt um safnið og gaman að rifja hana upp núna:

Lána lautarferðakörfur, plokkstangir og kökuform